Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður, hefur gengið frá kaupum á ísfirska blaðinu Bæjarins besta og fréttamiðlinum bb.is. Greint er frá kaupunum á vefsíðu bb.is .

„Samningar hafa tekist milli mín og BB Útgáfufélags ehf um kaup á rekstur fréttamiðilsins bb.is og blaðsins Bæjarins besta ásamt léni, vefréttindum og öðrum verðmætum sem útgáfunni fylgja," segir á vef blaðsins.

Auk þess segir að Kristinn muni leggja aukna áherslu á að styrkja fréttaflutning á vefnum. Þá þakkar Kristinn fráfarandi rekstraraðilum og starfsfólki fyrir vel unnin störf.

Þrátt fyrir góðæri undanfarin ár hefur rekstur fjölmiðla almennt verið þungur og helstu fjölmiðlar landsins hafa gert síðasta ár upp með verulegu tapi. Af þeim ástæðum er það nokkur áskorun að takast þessi rekstur á hendur. En lykillinn að árangri liggur í því að halda útgjöldum innan þeirra marka sem tekjur leyfa.