Tveir fyrrverandi yfirmenn Nyhedsavisen, Sven Damm og Morten Nissen Nielsen, hafa tryggt sér laun næsta árið þótt blaðið sé hætt að koma út, samkvæmt samningi sem þeir gerðu við Morten Lund í byrjun árs.

Þetta kemur fram á fréttaveitu Ritzau.

Sven Damm var þar til á miðvikudag framkvæmdastjóri 365 Media Scandinavia, útgáfufélags Nyhedsavisen, og Morten Nissen Nielsen var framkvæmdastjóri Nyhedsavisen.

Samtals hefur sá fyrrnefndi tryggt sér 1,5 milljónir danskra króna með starfslokunum og sá síðarnefndi 1,8 milljónir danskra króna.

Gerir ráð fyrir því að Lund standi við samningana

Morten Nissen Nielsen staðfesti tilvist samninganna í samtali við Ritzau í dag en hann vill ekki tilgreina upphæðirnar.

„Þegar Morten Lund íhugaði að kaupa Nyhedsavisen sagði hann við Sven og mig að hann myndi bara gera það ef við yrðum áfram í stjórn fyrirtækisins. Það vildum við gjarnan og í tengslum við það gerðum við samkomulag um þetta," segir hann.

Í samkomulaginu var tryggt að þeir fengju laun í eitt ár ef störfum þeirra lyki, til dæmis með því að blaðið hætti að koma út.

Nielsen tekur þó  fram í samtali við Ritzau að hann hafi þrátt fyrir þetta ekki haft neinn fjárhagslegan ávinning af því að blaðið yrði lagt niður. Hann geri ekki ráð fyrir öðru en að Lund standi við samkomulagið.