Tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds, sem stendur að Starborne-tölvuleiknum, er fyrsta félagið sem fær staðfestingu á að erlendur sérfræðingur á þess vegum fær frádrátt frá tekjuskatti samkvæmt reglugerð og nýsamþykktum lögum um tekjuskatt.

Þetta kemur fram á vef Samtaka iðnaðarins sem ásamt Samtökum sprotafyrirtækja hafa lengi barist fyrir því að auðvelda íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum að ráða til sín erlenda sérfræðinga með fágæta sérþekkingu.

„Hér er því um mikilvægt skref að ræða og fagna bæði samtökin þessum áfanga í baráttu sinni við að auka samkeppnishæfni íslenska tækniiðnaðarins.“ Lögin, sem um ræðir, voru samþykkt síðasta sumar. Þau fela í sér heimild fyrir erlendra sérfræðinga að draga frá skattskyldum tekjum 25% tekna fyrstu þrjú árin frá ráðningu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum..