Nýjasta kvikmynd úr smiðju Marvel, sem fjallar um ofurhetjuna Spider-Man, Köngulóarmanninn, hefur orðið fyrsta kvikmyndin á heimsfaraldurstímum sem rakar inn yfir einum milljarða dala í miðasölu í kvikmyndahúsum á heimsvísu. BBC greinir frá.

Kvikmyndin, Spider-Man: No Way Home, er þar af leiðandi jafnframt tekjuhæsta kvikmynd ársins 2021. Skaut myndin þar með kínversku kvikmyndinni The Battle of Lake Changjin, sem fjallar um Kóreustríðið, ref fyrir rass en sú kvikmynd hafði áður verið tekjuhæsta mynd ársins og halaði alls inn um 905 milljónir dala í miðasölu á heimsvísu.

Síðasta kvikmynd sem náði þeim merka áfanga að hala inn yfir milljarði dala í tekjur af miðsölu var nýjasta Stjörnustríðsmyndin; Star Wars: The Rise of Skywalker. Engin önnur Hollywood mynd hefur komist nálægt því að rjúfa milljarðs dala múrinn á þeim tæplega tveimur árum sem heimsfaraldur Covid-19 hefur leikið heimsbyggðina grátt.