Héraðsdómur vísaði frá fyrsta ákærulið er varðar viðskipti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar með Vöruveltunnar (10-11) en það er alvarlegasti liður ákærunnar. Sigurður Tómas Magnússon sérstakur saksóknari í Baugsmálinu sagði í fréttatíma Ríkisútvarpsins að líklega yrði úrskurði héraðsdóms áfrýað til Hæstaréttar.

Standi niðurstaða hérðasdóms koma 18 af 19 ákæruliðum til efnislegrar meðferðar.

Hér á eftir er birt grein Viðskiptablaðsins, þar sem fjallað var um þann lið ákærunnar sem héraðsdómur hefur vísað frá:

Í fyrsta kafla ákærunnar eru að mati lögfræðilegra álitsgjafa blaðsins langalvarlegustu sakargiftirnar. Jón Ásgeir er þar einn ákærður, aðallega fyrir fjársvik (248. gr. almennra hegningarlaga) en til vara umboðssvik (249. gr.). Fjársvikaákvæðið lýsir refsiverða þá háttsemi að koma manni til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert með því að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd viðkomandi og hafa þannig fé af honum eða öðrum.

Ákæruliður þessi gengur í grófum dráttum út á það að með röð nokkurra samninga á sjö mánaða tímabili 1998-99 hafi Jón Ásgeir keypt 10-11 búðirnar sjálfur og síðan talið stjórn Baugs á að kaupa þær á hærra verði þegar stjórn Baugs hafi talið sig vera að kaupa af fyrri eigendum og hagnast þannig sjálfur um 200 milljónir kr. Hluti af þessu ferli hafi verið að fasteignum 10-11 búðanna hafi verið ráðstafað til Litla-Fasteignafélagsins og þaðan til Stoða hf. með 140 milljóna kr. hagnaði sem runnið hafi til Gaums.

Sönnunarkröfur

Það er mat þeirra lögmanna sem Viðskiptablaðið hefur rætt við að ákæruvaldið þurfi að sanna þrjú atriði ef dæma á Jón Ásgeir fyrir fjársvik. Þau eru:

- Atvik hafi verið með þeim hætti sem lýst er í ákæru.

- Jón Ásgeir sjálfur, einhver á hans vegum eða óskyldur þriðji maður hafi auðgast.

- Stjórn Baugs hafi ekki verið upplýst um að Jóns Ásgeir væri raunverulegur seljandi.

Allir stjórnarmenn nema Jóhannes, faðir Jóns Ásgeirs, munu hafa borið um það við yfirheyrslur hjá ríkislögreglustjóra að þeir hafi ekki vitað af því að Jón Ásgeir væri raunverulegur seljandi. Ef ske kynni að ákærða með einhverjum hætti tækist að sýna fram á að stjórn Baugs hafi vitað af því að Jón Ásgeir væri raunverulegur seljandi ákærir sérstakur saksóknari hann til vara fyrir umboðssvik, en ákvæði 249.gr. alm. hgl. er að mati lögmanna hálfgerð ruslakista, þegar ekki tekst að heimfæra háttsemi undir önnur brot.

Umboðssvik skv. 249.gr. eru skilgreind sem svo að maður misnotar aðstöðu sína, sér eða sínum til hagsbóta, en umbjóðanda sínum til tjóns. Brot er fullframið við misnotkun aðstöðu, alveg án tillits til þess hvort af misnotkun hlýst tjón. Hætta á ólögmætri yfirfærslu fjármuna (tjóni) er saknæm. Nægjanlegt er að háttsemi hafi í för með sér verulega hættu á tjóni til að um brot sé að ræða.

Ákæruvaldið þarf að sanna þrennt ef dæma á Jón Ásgeir fyrir umboðssvik:

- Atvik hafi verið með þeim hætti sem lýst er í ákæru.

- Jón Ásgeir hafi verið að nýta sér aðstöðu sína til þess að skuldbinda Baug.

- Hætta hafi verið á tjóni fyrir Baug og Jón Ásgeir sjálfur eða einhver á hans vegum auðgast.

Tekist á um sölu fasteigna

Vitneskja stjórnar Baugs skiptir ekki máli, segja þeir lögfróðu aðilar sem Viðskiptablaðið ræddi við, þegar kemur að sakfellingu fyrir umboðssvik né heldur hvort Baugur hafi hagnast um 3,5 til 4 milljarða á þessum kaupum eins og fram kemur í athugasemdum Jóns Ásgeirs. Sakarefnið gengur út á það að Jón Ásgeir hafi hlunnfarið Baug við kaupin sjálf um 375 milljónir kr. sem er þá tjón Baugs samkvæmt uppleggi ákæruvaldsins og hann sjálfur hagnast um 200 milljónir króna.

Málefni Vöruveltunnar hafa verið töluvert til umræðu í aðdraganda málsins og gerði Jón Ásgeir þau að umræðuefni í bréfi sínu til ríkislögreglustjóra 30. júní 2005. Í skjali sem Morgunblaðinu barst frá lögmanni eins sakborninga í ágúst í fyrra eru einnig settar fram athugasemdir sakborninga við einstaka ákæruliði og voru þær birtar orðrétt í Morgunblaðinu 14. ágúst, 2005.

Í athugasemdum við þennan ákærulið hefur Jón Ásgeir sagt að hann hafi ekki verið eigandi heldur komið fram sem umboðsmaður kaupanda sem skyldi tilgreindur innan 30 daga. Íslandsbanki hafi síðan yfirtekið söluferlið og aðrir aðilar komið að sem eignast hafi 70% hlut en ekki hann. Það var sú frásögn sem samkeppnisráð studdist við þegar það tók ákvörðun sína eins og kemur fram í meðfylgjandi innskotsgrein. Hann hafi ekkert hagnast á þessum viðskiptum og skorti því allan auðgunartilgang. Reifun athugasemda sakborninga byggir á greinargerðum þeirra sem birst hafa í fjölmiðlum en þeir hafa fengið fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga til að skrifa greinargerðir um málið. Óhætt er að fullyrða að þeir hafi náð að koma sjónarmiðum sínum nokkuð rækilega að.

Um sölu fasteigna 10-11 hefur Jón Ásgeir gert þær athugasemdir að það geti vart talist misnotkun aðstöðu að hafa selt umræddar fasteignir á 354 milljónir kr. sem hafi verið markaðsvirði eignanna þá þegar matsverð eignanna [sumarið 2005] væri 573 milljónir kr. Markaðsvirði eignanna þegar Stoðir keyptu þær eða markaðsvirði í dag skiptir ekki máli að mati lögfræðilegra álitsgjafa blaðsins, sakarefnið lýtur að því hvort Jón Ásgeir eða félag í hans eigu hafi keypt eignirnar á lægra verði en Stoðir síðan keyptu. Jón Ásgeir og Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs Group, hafa báðir haldið því fram að í ákærunni komi fram mikill misskilningur á eðli og framkvæmd þeirra viðskipta sem hér um ræðir.

Áhugaverðar vitnaleiðslur

Sönnunarfærsla vegna atvika málsins fer fram við aðalmeðferð. Vegna þessa liðar munu væntanlega allir þeir sem að þessum kaupum komu gefa skýrslu, fyrri eigendur 10-11, fulltrúar Íslandsbanka, stjórnarmenn í Baugi o.fl. auk þess sem öll tiltæk skjalleg gögn eru lögð fram fyrir dómara. Af vitnaleiðslulistanum að dæma verða vitnaleiðslur málsins einstakar í íslenskri réttafarssögu.

Um viðskiptin með Vöruveltuna og aðkomu Fjárfars að þeim kaupum hefur verið töluvert fjallað um í fjölmiðlum og þá sérstaklega í Morgunblaðinu. "Enginn vill kannast við Fjárfar," sagði í fyrirsögn fréttaskýringar Morgunblaðsins 12. júlí á síðasta ári. Þar kom fram að Fjárfar ehf. stóð á árunum 1999-2003 í margvíslegum fjárfestingum og tók m.a. þátt í harðvítugri baráttu um völd í Straumi og Íslandsbanka. "Samt virðist vera mjög óljóst hver á félagið og hver stjórnaði því. Stjórnarmenn í félaginu segjast ekkert eiga í því og ekkert hafa skipt sér af því og stjórnarformaður Baugs sagði fyrir einu ári að Fjárfar væri alls óviðkomandi Baugi. Engu að síður er Jóhannes Jónsson, kenndur við Bónus, skráður stjórnarmaður í félaginu og í fréttum í Morgunblaðinu hefur félagið verið sagt í eigu eigenda Baugs," segir í frétt blaðsins. Flutti Morgunblaðið fjölmargar fréttir um málið þar sem svör þeirra Sigfúsar Sigfússonar, Sævars Jónssonar og Gylfa Arnbjörnssonar voru öll á sama lund. Allir þessir menn eru á vitnalista.

Það hefur ekki farið framhjá neinum að undanfarið hafa verið blaðadeilur á milli hæstaréttarlögmannanna Sveins Andra Sveinssonar og Hreins Loftssonar um málið. Að hluta til hefur mátt sjá þar þau efnisatriði sem tekist verður á um og í grein Hreins síðastliðinn mánudag fjallar hann um málefni Vöruveltunnar. Þar sagði hann meðal annars: "Til þess að ákæruliður þessi gangi upp og leiði til sakfellingar verða dómstólar að viðurkenna nánast ofurmannlega hæfileika Jóns Ásgeirs til þess að sjá fyrir óorðna hluti og aðstæður í framtíðinni. Einnig til að ná stórum hópi manna undir áhrifavald sitt og gera þá að viljalausum verkfærum sínum."

Refsirammi fjársvikaákvæðisins er sex ár en tvö ár í umboðssvikunum, sem hækkar í sex ár ef sakir eru miklar. Ekki er gert ráð fyrir að aðalmeðferð vegna málsins verði fyrr en með haustinu. Gera má ráð fyrir að þangað til verði tekist á um frávísunarkröfur í málinu. Verði sakfellt fyrir fjársvikakaflann má, miðað við dómaframkvæmd, gera ráð fyrir 2-4 ára óskilorðsbundinni refsingu. Verði sakfellt fyrir umboðssvik má gera ráð fyrir 2-3 ára óskilorðsbundinni refsingu, segja lögfræðilegir álitsgjafar Viðskiptablaðsins. Þetta er sett fram til að sýna refsirammann en ber ekki á nokkurn hátt að túlka sem spásögn enda allir menn saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð.