„Ég legg mjög hart að mér í þessu starfi og tek það mjög alvarlega. Það er bara ákveðin fagmennska sem ég tel að þurfi að vera til staðar því það er mikil ábyrgð sem fylgir því að stýra landsliði þjóðar,“ segir Guðmundur Þórður Guðmundsson sem fyrr á árinu tók við íslenska karlalandsliðinu í handbolta í þriðja sinn á ferlinum. Það er óhætt að segja að Guðmundur sé einn sigursælasti handboltaþjálfari sem Ísland hefur alið.

Á þjálfaraferli sem spannar tæp 30 ár hefur hann meðal annars unnið brons á EM 2010 og silfur á Ólympíuleikum 2008 með íslenska landsliðinu auk fjórða sætis á EM 2002. Hann varð Íslandsmeistari með Fram árið 2006, vann EHF bikarinn með Rhein-Neckar Löwen árið 2013 auk þess sem liðið tapaði þýsku úrvalsdeildinni í handbolta árið eftir með einungis tveggja marka mun á markatölu. Þá vann hann silfurverðlaun með landslið Barein á Asíumótinu snemma á þessu ári. Stærsta afrek Guðmundar er þó líklega þegar hann stýrði danska landsliðinu til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016.

Eins og áður segir hefur Guðmundur nú tekið við landsliðinu í þriðja sinn en hann stýrði því einnig frá 2001-2004 og 2008-2012. Aðstæður liðsins eru þó ólíkar nú en það stendur á tímamótum þar sem margir af máttarstólpum liðsins eru hættir eða eru að hætta á sama tíma ungir og efnilegir leikmenn eru að koma upp. „Ég hef alltaf sótt í krefjandi verkefni í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur,“ segir Guðmundur spurður af hverju hann hafi tekið aftur við liðinu á þessum tímapunkti. „Mér leið vel sem landsliðsþjálfari í hin tvö skiptin sem ég var með liðið og fannst gaman að starfa með því. Þetta tækifæri kom upp í febrúar þegar ég var búinn með mitt verkefni á Asíumótinu með Barein.

Ég var í raun ekki lengi að taka ákvörðun og hugsaði með mér að mig langaði að gefa af mér og miðla af tæplega 30 ára reynslu minni. Mér fannst liðið einnig standa á miklum tímamótum og það var raunverulega komin þörf á að byggja upp nýtt og ungt lið og mig langaði að taka þátt í því. Þetta snerist ekki um laun eða því um líkt heldur bara um að verkefnið sem slíkt væri virkilega áhugavert.“

Guðmundur lagði áherslu á það í viðræðum við HSÍ að það myndi taka tíma að byggja upp nýtt lið sem geti komið Íslandi aftur meðal bestu handboltaþjóða heims. „Ég lagði áherslu á það og held því fram að það geti ekki tekið styttri tíma en þrjú ár að komast aftur þangað sem við viljum vera á meðal 8-10 bestu liða í heimi. Liðið er núna á bilinu 13-16. Það er staðan eins og hún er í dag en við ætlum að feta okkur ofar.“

HM fyrsta alvöru prófraunin

Líkt og flestir vita hefst HM í handbolta 10. janúar næstkomandi í Danmörku og   Þýskalandi en Ísland er í riðli Spáni, Króatíu, Makedóníu, Barein og Japan þar sem þrjú lið komast áfram í milliriðla. „Það er eiginlega ómögulegt að svara því af einhverju viti vegna þess ég veit það ekki. Það er akkúrat það sem er spennandi við þetta,“ segir Guðmundur spurður um hvar íslenska liðið standi fyrir mótið. „Ástæðan fyrir því er meðal annars sú að við erum að fara í gegnum svo miklar breytingar. Breytingu í miðju varnarinnar, það er breyting með línumannastöðuna auk þess sem það eru nýir leikstjórnendur þannig að það er töluverð óvissa.

HM er í raun fyrsta alvöru prófraunin á því hvar liðið stendur í dag. Við erum núna búnir að fara í gegnum leiki við bæði Litháen í undankeppni HM og Grikkland og Tyrkland í undankeppni EM. Þó að munurinn milli þjóða í handbolta sé alltaf að minnka eru þetta ekki meðal hæst skrifuðu handboltaþjóða heims. Ég veit því ekki nákvæmlega hvar við stöndum gegn þjóðum eins og Króatíu eða Spáni sem eru með okkur í riðli.“

Hverjir eru möguleikar og væntingar liðsins fyrir HM?

„Ég held að fyrir okkur snúist þetta fyrst og fremst um að komast upp úr riðlinum þar sem hann er erfiður. Það er því okkar fyrsta markmið. Við erum ekki komnir lengra og eins og staðan er í dag er þetta nokkuð háleitt markmið þar sem okkur hefur einfaldlega ekki gengið vel á undanförnum stórmótum. Það er því fyrsta skrefið og ekki hægt að fara að tala um eitthvað meira fyrr en við náum því. Ég held það væri óeðlilegt ef menn ætluðu sér að vera með of miklar væntingar til liðsins vegna þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað. Þetta er því örlítið öðruvísi verkefni en mörg önnur stórmót þó að auðvitað viljum við standa okkur og setjum ákveðna pressu á okkur sjálfa.“

Nánar er rætt við Guðmund í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .