Gunnar Andri Þórisson er kominn á lokametrana með bók sína „Message From The Middle of Nowhere“ sem stefnt er á að komi út á alþjóðlegum vettvangi fyrir jól. Gunnar hefur í rúm 20 ár hjálpað einstaklingum og fyrirtækjum að skerpa á árangri í sölu og þjónustu í gegnum ráðgjafafyrirtæki sitt, Söluskóla Gunnars Andra.

Segja má að nýjar dyr hafi opnast fyrir nokkrum árum er hann kynntist hinum heimsþekkta rithöfundi og fyrirlesara, Brian Tracy. Tracy fékk Gunnar í kjölfarið til að vera meðhöfund bókar að nafni „Against the Grain“ og völdu útgefendur kafla Gunnars þann besta í bókinni. Nú er komið að Gunnari að gefa út eigin bók sem byggir á ævi hans og lífsreynslu en kynnir lesendur jafnframt vel fyrir Íslandi.

„Hugmyndin að bókinni kom fyrir mörgum árum og ég hugsaði alltaf með mér þegar hlutirnir gengu ekki nógu vel hjá mér að þá yrði bókin allavega bara betri,“ segir Gunnar. Aldrei áður hafi verið skrifuð bók sem gæti flokkast undir sjálfshjálparbók en fjallar jafnframt um álfa, tröll, snjóflóð, eldgos og fleira.

Kemur inn á allt það merkilegasta við Ísland

Óhætt er að segja að Gunnar Andri fari um víðan völl þegar kemur að atburðum og menningararfleifð úr Íslandssögunni. Honum tekst að meðal annars að tvinna boðskap bókarinnar við eldgosin í Vestmannaeyjum og Eyjafjallajökli, Icesave og bankahrunið, íslenska hestinn og lundann, Vigdísi Finnbogadóttur, Grýlu og jólasveinana, Halldór Laxness, Bláa lónið, norð­urljósin, árangur knattspyrnulandsliðsins og margt fleira.

„Ég er í raun heppinn að það tók mun meiri vinnu og tíma að skrifa þessa bók en ég hafði áformað vegna þess að í seinasta kaflanum gat ég fjallað um árangur íslenska fótboltalandsliðsins. Þar tengi ég við hversu miklu máli það skiptir að allir standi saman, mikilvægi leikgleðinnar og að það sé vel valinn maður í hverju horni,“ segir Gunnar. Þá leggur hann mikla áherslu á útlitshlið bókarinnar, en við hvern kafla eru teikningar eftir Þóri Celin og framan á bókakápunni er galdrastafurinn Vegvísir sem hjálpar fólki að finna réttu leiðina í vondum veðrum og lífinu almennt.

Gunnar viðurkennir að það hafi verið mikil áskorun að tengja boðskap bókarinnar við íslenskar skírskotanir en að það hafi þó að hluta til gerst af sjálfu sér. Sem dæmi fjallar fyrsti kaflinn um eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973, en Gunnar á ættir að rekja til Eyja og man eftir því sex ára gamall að hús hans fylltist skyndilega af ættmennum sem flúið höfðu gosið til Reykjavíkur.

„Ég var einungis sex ára gamall en gleymi þessu ekki frekar en því sem gerðist núna fyrir hádegi. Allt húsið var skyndilega troðfullt af Vestmannaeyingum, öll föðurfjölskyldan mín var komin inn í stofu,“ segir Gunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .