AHA og drónatæknifyrirtækið Flytrex tilkynntu í dag formlega opnun á sendingaþjónustu með drónum á höfuðborgarsvæðinu, en þjónustan er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Með kerfinu er ætlunin að auka skilvirkni í heimsendingaþjónustu, stytta sendingartímann og draga úr orkunotkun.

Eftir ítarlegt umsóknarferli hjá Samgöngustofu fékk AHA leyfi til að hefja flug og bjóða neytendum upp á að fá veitingar og vörur frá verslunum og veitingastöðum eftir einni flugleið í höfuðborginni.

Kerfið stýrir flugi drónans á milli þessara tveggja svæða sem skilin eru að af Elliðaárvogi, en með þessu dregur úr orkunotkun og þörfinni á þeim mannskap sem þarf til að senda vöruna á landi og er talið að þetta geti minnkað sendingartímann um 20 mínútur á álagstímum. Eftir ákveðinn reynslutíma og prófanir stefna AHA og Flytrex að því að senda vörur og veitingar með drónum eftir fleiri flugleiðum og að lokum beint í garðinn hjá neytendum.