Atvinnuvegaráðuneytið hefur frestað eindaga á fyrstu greiðslu veiðigjalda frá 15. október næstkomandi til 1. desember. Heildargjaldið er áætlað um 15 milljarðar króna en frádráttur vegna vaxtakostnaður gæti numið 1,5 til 2 milljörðum. Í heild er áætlað að álögð veiðigjöld verði um 14,9 milljarðar króna á fiskveiðiárinu.

Samkvæmt ákvæði II. til bráðabirgða í lögum um veiðigjöld eiga skuldsettar útgerðir rétt á lækkun á sérstöku veiðigjaldi vegna vaxtakostnaðar við kaup á aflahlutdeildum.

Fram kemur á vefsíðu atvinnuvegaráðuneytis að það hafi í samstarfi við Ríkisskattstjóra og Fiskistofu, auk óháðra endurskoðenda, unnið að setningu reglugerðar um framkvæmd lækkunarinnar. Þá segir að vinnan hafi reynst umfangsmeiri en ætlað var í fyrstu. Í reglugerð sem áætlað er að gefin verði út innan fárra daga verður mælt fyrir um heimild skuldsettra útgerða til að sækja um lækkun sérstaks veiðigjalds til 1. nóvember næstkomandi. Fiskistofu er svo ætlað að skera úr um réttindi einstakra útgerða til lækkunar eigi síðar en 1. desember nk.