Hið nýstofnaða norræna fjárfestingarfélag Nordic Ignite hefur opnað fyrir umsóknir um fjármögnun fyrir sprotafyrirtæki á heimasíðu sinni. Félagið, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í nýsköpun á hugmyndastigi (e. pre-seed), horfir til þess að ljúka sinni fyrstu fjárfestingu í desember eða janúar.

„Þar sem við erum að fjárfesta í fyrirtækjum á fyrstu stigum, þá erum við fyrst og fremst að leita að góðum teymum. Við viljum hafa trú á því að þau geti gert það sem þau leggja upp með,“ segir Ragnheiður H. Magnúsdóttir, stjórnarformaður og einn stofnenda Nordic Ignite.

Fjárfestingarfélagið hyggst fjárfesta fyrir allt að 35 milljónir í þeim verkefnum sem standa upp úr en vill að auki fylgja eftir völdum félögum með viðbótarfjárfestingum. Ragnheiður bætir við að í sumum tilvikum gæti Nordic Ignite veitt ákveðnum teymum, sem eiga eftir að skilgreina viðskiptahugmynd sína betur, 2-4 milljónir til að koma undir sig fótunum.

Viðskiptablaðið greindi í september frá áformum Nordic Ignite um að sækja ríflega 2 milljarða króna á næstu 2-3 árum og skrá félagið á íslenska First North-hlutabréfamarkaðinn.

Rignir inn umsóknum

Þrátt fyrir að Nordic Ignite hafi lítið auglýst sig hefur umsóknum rignt inn. Tugir umsókna hafa borist frá öllum Norðurlöndunum og vonast Sigurjón Magnússon, framkvæmdastjóri Nordic Ignite og einn af stofnendum, til að sem flest íslensk teymi sæki um. Umsóknarferlið er einfalt og tekur tiltölulega stuttan tíma að hans sögn.

„Frumkvöðlarnir þurfa að svara nokkrum spurningum og svo geta þeir boðað okkur á kortersfund, rétt til að fá að kynnast okkur því það er mikilvægt að það sé áhugi beggja megin á samstarf. Eitthvað sem er ekki endilega sjálfgefið. Í framhaldinu bjóðum við þeim teymum sem okkur líst best á að „pitcha“ fyrir okkur,“ segir Sigurjón.

Auk fjármögnunar vill Nordic Ignite aðstoða sprotafyrirtækjunum í eignasafni sínu með ráðgjöf frá hópi 30 englaráðgjafa (e. angel ambassadors), sem hafa sérþekkingu hver á sínu sviði. Teymum og ráðgjöfum verður raðað saman eftir þörfum en þau geta sem dæmi fengið aðstoð frá einkaleyfislögfræðingum og markaðssérfræðingum.

„Við viljum einnig aðstoða sprotafyrirtæki sem eru að sækjast eftir frekara fjármagni seinna meira að undirbúa sig fyrir næsta fjármögnunarlotuna og tengja þau við stærri sjóði á Norðurlöndunum.“

Nánar er fjallað um Nordic Ignite í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út þann 24. nóvember 2022.