Nú er í fyrsta sinn hægt að kaupa sér fartölvu sem er smíðuð og hönnuð af Microsoft frá toppi til táar.

Ný fartölva hugbúnaðarrisans heitir Microsoft Surface Book og er eins konar blendingur spjaldtölvu og fartölvu. Hægt er að losa skjáinn, sem er með rafhlöðu út af fyrir sig, burt frá lyklaborðinu, og nota hann einn og sér.

Hin sígilda PC-tölva er samansett af hugbúnaði frá Microsoft og vélbúnaði frá öðru fyrirtæki á borð við Samsung, Lenovo eða Hewlett-Packard. Surface Book er sérstök að því leytinu til að hún er algjörlega úr smiðjum Microsoft, húgbúnaður jafnt sem vélbúnaður.

Umsagnir um fartölvuna hafa verið jákvæðar hingað til. Notendur hafa hrósað henni í hástert, og sérlega því hversu snurðulaus skiptingin er úr spjaldtölvu í fartölvu. Helst hefur hún verið gagnrýnd fyrir hátt verð, en hún kostar einhverja 1.500 bandaríkjadali eða 187.000 krónur, og að ekki sé hægt að loka henni almennilega, eins og öðrum fartölvum. Er þar hjarabúnaði spjaldtölvunnar um að kenna.