„Félagsbústaðir hafa gefið út svonefnd félagsleg skuldabréf, þau fyrstu sinnar tegundar á Íslandi. Skuldabréfaflokkurinn, FB100366 SB, er verðtryggður til 47 ára og ber einfalda ábyrgð Reykjavíkurborgar.“

Þannig hefst frétt á vef verðbréfafyrirtækisins Fossar markaðir sem hafði umsjón með útgáfu skuldabréfanna fyrir hönd Félagsbústaða. Þar að auki veitti Circular Solustions ráðgjöf við undirbúning og gerð rammans um félagsleg skuldabréf.

„Félagsleg skuldabréf (e. Social Bonds) eru skuldabréf sem gefin eru út til að fjármagna sérstök verkefni sem hafa jákvæð samfélagsleg áhrif. Einn helsti hvatinn að útgáfu slíkra skuldabréfa er vaxandi krafa fjárfesta um samfélagslega ábyrga fjárfestingakosti,“ segir enn fremur í frétt á vef Fossa markað.

„Alls voru 6.400 milljónir að nafnvirði seldar í lokuðu útboði á ávöxtunarkröfunni 1,90% og verður óskað eftir töku flokksins til viðskipta á Sustainable Bond markaði Nasdaq Iceland. Tilgangur útgáfunnar er meðal annars að fjármagna frekari fjárfestingar í leiguhúsnæði á vegum félagsins, en stefnt er að því að fjölga íbúðum Félagsbústaða um rúmlega 500 fram til ársins 2022.“