Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg mun halda fyrsta fjallaskíðamót landsins föstudaginn langa, 18. apríl.  Mótið hefst í Fljótum og verður gengið frá Heljartröð yfir Siglufjarðarskarð í átt að Illviðrishnjúki,  meðfram skíðasvæðinu í Skarðsdal og niður til Siglufjarðar.  Keppnisleiðin er krefjandi og því mikil ögrun fyrir þátttakendur.

Mikil skíðahefð er á Siglufirði og er Skíðafélag Siglufjarðar eitt elsta skíðafélag landsins en það var stofnað árið 1920. Fyrsta skíðamótið á Íslandi var haldið að Barði í Fljótum árið 1905 á vegum Siglfirðinga og Fljótamanna. Keppendur voru tuttugu talsins.  Sigurvegari í keppninni varð Ólafur Gottskálksson frá  Fjalli í Sléttuhlíð og hlaut hann 25 krónur í verðlaun. Þá kostaði eitt lambskinn 24 aura.

Það er því „vel við hæfi að félagið haldi fyrsta fjallaskíðamót landsins á Tröllaskaga en Tröllaskagi hefur undanfarin ár verið helsta vígi er fjallaskíðamennsku á landinu auk þess að vera rómaður af fjallaskíðamönnum um allan heim," segir í tilkynningu.

Keppt verður í karla- og kvennaflokki. Þau sem sigra fá í verðlaun þyrluskíðun í boði Eleven Experience og Orra Vigfússonar sem eru aðalbakhjarlar þessa móts.

„Ofurtröllamótið á Tröllaskaga verður alþjóðlegt og er tilgangur þess meðal annars að vekja athygli umheimsins á líkamsrækt í náttúrulegu umhverfi og vetraríþróttum á Tröllaskaga,  hreinleika svæðisins svo og sjálfbærni í óspilltri náttúru. Loks er mótið haldið í fjáröflunarskyni fyrir Skíðafélag Siglufjarðar," segir í tilkynningu.