*

laugardagur, 18. janúar 2020
Innlent 15. maí 2013 17:07

Fyrsta flug Icelandair til Alaska í dag

Þota Icelandair leggur af stað í fyrstu ferð í nýju áætlunarflugi milli Íslands og Anchorage í Alaska í dag.

Ritstjórn

Í dag hefst í fyrsta sinn beint áætlunarflug milli Íslands og Alaska, þegar Boeing 757 þota Icelandair tekur á loft frá Keflavíkurflugvelli kl 17:10 síðdegis áleiðis til Anchorage.

Í tilkynningu kemur fram að flogið verður samkvæmt áætlun tvisvar í viku til 15. september. Flugið til Anchorage frá Íslandi tekur rúmlega 7 klukkustundir, sem er lítið eitt styttra en t.d. flug til Seattle og Denver. Flugleiðin liggur í norðurátt frá Íslandi, yfir pólsvæðið, þannig að nú í sumar verða öll flugin í bjartri sól og miðnætursól á leiðinni frá Alaska til Íslands.

Þar er haft eftir Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóra Icelandair, að töluverður straumur flugfarþega sé á milli Evrópu og Alaska, bæði vegna öflugs atvinnulífs, sem m.a. byggir á fiskveiðum og olíu og gasvinnslu, og vegna ferðaþjónustu, en Alaska er mikil náttúru- og útivistarparadís. Þessir farþegar millilenda venjulega í Bandaríkjunum, en með því að millilenda á Íslandi í staðinn geta þeir stytt ferðatíma sinn um nokkrar klukkustundir og í því felst sérstaða Icelandair á þessum markaði að sögn Birkis.

Hér á landi er nú stödd viðskiptasendinefnd frá Alaska í tilefni af fyrsta fluginu. Hana skipa Susan Bell, viðskiptaráðherra fylkisins, Steve Hatter, aðstoðarráðherra samgöngumála, Rick Rogers, forstjóri auðlindaþróunarstofnunar, Julie Saupe, forstjóri markaðstofu ferðamála og Andrew Halcro, forstjóri viðskiptaráðs fylkisins. Þau hafa fundað með aðilum úr íslenskri stjórnsýslu og viðskiptalífi. Þau munu fljúga til sins heima í dag með Icelandair í þessu fyrsta beina flugi.

Stikkorð: Icelandair Alaska