Fyrsta flug Icelandair frá Dallas í Texas lenti á Keflavíkurflugvelli í morgun. Tveir liðsmenn Tólfunnar, Svenni og Benni, létu til sín taka við brottför flugsins á Dallasflugvelli í gærkvöldi og kenndu farþegum og starfsfólki hið heimsfræga „húh“ íslenskra fótboltaaðdáenda við mikinn fögnuð.

Flogið er fjórum sínnum í viku til Dallas, en alls flýgur Icelandair til 23 áfangastaða í Norður-Ameríku á þessu ári.

Dallas er kjarninn í einu stærsta þéttbýlissvæði Bandaríkjanna, með um 7,5 milljónir íbúa. Borgin er í norðurhluta Texas og er nú ört vaxandi hátækniborg með öflugu viðskiptalífi og menningarstarfi. Þá er borgin stór samgöngumiðstöð fyrir suðurhluta Bandaríkjanna og Suður-Ameríku og þar leikur Dallas Fort-Worth flugvöllurinn sem Icelandair flýgur á aðalhlutverk.