*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 4. maí 2018 12:19

Fyrsta flug WOW air til Cleveland

Airbus A321 vél félagsins flaug í gærkvöldi fyrsta áætlunarflugið til borgarinnar í Ohio sem flogið verður til fjórum sinnum í viku.

Ritstjórn
Cleveland er meðal annars þekkt fyrir Rock & Roll frægðarhöllina og öfluga tónlistarsenu.
epa

Fyrsta flug WOW air til Cleveland var flogið í gærkvöldi. Flogið verður þangað fjórum sinnum í viku, á þriðjudögum, fimmtudögum, laugardögum og sunnudögum í Airbus A321 vélum flugfélagsins. Flugtíminn er sex og hálfur klukkutími en lent er í Cleveland rétt fyrir miðnætti að staðartíma. Þetta er í fyrsta skipti í níu ár sem flug til Evrópu býðst íbúum Cleveland.

Cleveland er önnur stærsta borg Ohio með íbúafjölda upp á rétt rúmar tvær milljónir. Borgin er annáluð fyrir mikla matarmenningu og öfluga tónlistarsenu en Rock & Roll frægðarhöllin hefur vakið mikla lukku segir í fréttatilkynningu. Þá er Cleveland mikil íþróttaborg en hinn heimsþekkti körfuboltakappi LeBron James spilar fyrir Cleveland Cavaliers.

„Þetta flug markar upphaf nýs tíma fyrir íbúa Ohio-ríkis sem geta nú flogið beint til Íslands og þaðan áfram til Evrópu. Lág fargjöld WOW air gera fólki kleift að láta drauma sína um frí í Evrópu rætast,“ segir Robert Kennedy, framkvæmdastjóri Cleveland Hopkins International flugvallar.

Þetta er tíundi áfangastaður WOW air í Bandaríkjunum en í lok maí verða þeir 13 talsins. Í síðustu viku hófst flug til Detroit, Stansted-flugvallar í London og JFK-flugvallar í New York.

Stikkorð: Wow Air Cleveland Ohio