*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 6. apríl 2017 16:55

Fyrsta flug Wow air til Miami

Wow air flaug sitt fyrsta flug til Miami í gærkvöldi og mun fljúga þangað allan ársins hring.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Wow air flaug sitt fyrsta flug til Miami í gærkvöldi og mun fljúga þangað allan ársins hring. Flogið er þrisvar í viku, á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu.

Flogið var í nýrri Airbus A330 breiðþotu til Miami International flugvallarins sem er í stuttri akstursfjarlægð frá hjarta Miami. Vel var tekið á móti farþegum úr jómfrúarflugi WOW air en sólríkt er þar ytra og hiti í kringum 25 gráður.

„Við erum mjög ánægð með að bæta Miami við leiðarkerfi okkar, en áfangastaðir WOW air eru nú komnir yfir þriðja tuginn. Þessi sólríki staður hefur heillað margan ferðamanninn í gegnum tíðina enda einkennist hann bæði af litríkri menningu, frábærum íþróttaliðum, fjörugu næturlífi og fallegum ströndum. Með því að bjóða upp á flug á jafn lágu verði og raun ber vitni gerum við fleirum kleift að njóta lífsins í sólinni en nokkru sinni fyrr,“ segir Skúli Mogensen stofnandi og forstjóri Wow air.

Stikkorð: Wow air Miami jómfrúarflug