WOW air flaug sitt fyrsta flug til Pittsburgh í dag en þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingum býðst beint flug til Pittsburgh. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá WOW.

Mun flugfélagið fljúga til Pittsburg fimm sinnum í viku  á mánudögum, miðvikudögum, fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum og er flugtíminn rétt rúmir sex klukkutímar. Flogið verður í Airbus A321 vélum.

Þetta er sjöundi áfangastaður WOW air í Bandaríkjunum en í júlí mun Chicago einnig bætast við vaxandi leiðarkerfi WOW air.

Pittsburgh er önnur stærsta borgin í Pennsylvaníuríki og sú tuttugusta í Bandaríkjunum. Borgin hefur meðal annars verið kölluð borg brúanna en í Pittsburgh eru hátt í 500 brýr. Borgin hefur verið valin af The Economist sem ein þeirra borga í Bandaríkjunum þar sem best er að búa.