Fyrsta flugi Greenland Express frá Akureyri til Kaupmannahafnar var aflýst í gær á ný. Fyrirtækið ætlar nú að hefja áætlunarflugið 16. júlí næstkomandi. Þessu greinir Vísir frá.

Gert Brask, stofnandi og forstjóri Greenland Express, segir hollenska fyrirtækið Denim Air, sem á flugvélina sem grænlenska flugfélagið hefur leigt fyrir ferðirnar, ekki hafa náð að manna áhöfn vélarinnar sem átti að fara frá Akureyri í gær. Hann segir fáa farþega hafa átt bókað flug. „En það er rétt að við ætlum að hefja flugið 16. júlí,“ segir Brask.

Upphaflega stóð til að hefja áætlunarflugið þann 2. júní síðastliðinn, en það gekk ekki upp. Fyrsti ákveðni flugdagurinn var 25. júní, en því flugi var frestað, eins og áður segir.

Upphaflega átti áætlunarflug að hefjast milli Grænlands og Danmerkur með viðkomu á Íslandi. Flugfélagið hefur yfir tveimur flugvélum að ráða en vélin sem á að fara frá Akureyri er nýuppgerður Fokker-100 sem tekur 100 manns í sæti. Fljúga á tvisvar í viku allt árið frá Akureyri til Kaupmannahafnar og þaðan til Álaborgar á sunnudögum og miðvikudögum.