Stjórnvöld í Kína munu á næstu dögum tilkynna um fólksfækkun í fyrsta sinn frá hungursneyðinni sem fylgdi kínverska framfarastökkinu, misheppnaðri efnhagsstefnu Mao Zedong, í lok sjötta áratugarins.

Nýjasta manntalning kínverskra tölfræðistofnunarinnar lauk í desember en hefur ekki enn verið birt opinberlega. Gert ráð fyrir að mannfjöldi Kína verði undir 1,4 milljörðum, samkvæmt heimildum Financial Times , en fjöldinn fór yfir þá tölu árið 2019.

Viðmælendur FT segja jafnframt að upplýsingarnar þykja mjög viðkvæmar meðal stjórnvalda og verða ekki birtar fyrr en nokkur ráðuneyti verði einhuga um gögnin og afleiðingar þeirra. Upphaflega átti að birta manntalninguna í byrjun apríl.

Talsmaður tölfræðistofnunar Kína sagði þann 16. apríl síðastliðinn að tafirnar stöfuðu aðallega af meiri „undirbúningsvinnu“. Tafirnar hafa verið gagnrýndar harðlega á samfélagsmiðlum.

Greinendur telja að fólkfækkunin gefi til kynna að Indland verði bráðlega fjölmennasta land í heimi en alls búa þar um 1,38 milljarðar manna. Fólksfækkunin í Kína gæti orðið mikið högg fyrir stærsta hagkerfi Asíu og haft veruleg áhrif á allt frá neyslu til heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða.

Fæðingartíðni í Kína hefur lækkað undanfarin ár þrátt fyrir að árið 2015 voru lög um barneignir rýmkuð þar sem öllum pörum var heimilað að eignast tvö börn í stað eins til þess að stuðla að hærri fæðingartíðni. Mannfjöldinn jókst undir eins-barns stefnunni sem var innleidd í lok áttunda áratugarins vegna mikillar fjölgunar ungs fólks í kjölfar kommúnistabyltingarinnar ásamt auknum lífslíkum.

Myndin gæti orðið enn svartari en seðlabanki Kína birti í síðustu viku mat á fæðingartíðni kvenna þar sem fram kemur að hver kona mun eiga að jafnaði 1,5 barn yfir líftíma sinn samanborið við 1,8 í opinberu mati stjórnvalda. „Það er nánast staðreynd að Kína hefur ofmetið fæðingartíðnina,“ segir í skýrslu seðlabankans. Jafnframt sagði bankinn að vandamálin vegna aldursamsetningar þjóðarinnar gæti orðið meiri en búist var við.

Heimildarmaður FT segir að ofmatið stafi af því að fjárlagakerfið í Kína notar opinberar tölur um mannfjölda til að ákvarða fjárlög, þar á meðal fyrir menntakerfið og almannaöryggi. „Það er hvati fyrir svæðisbundin stjórnvöld að ýkja tölurnar svo að þau fái meira fjármagn,“ er haft eftir honum.