Fyrsta forsíðufrétt fríblaðsins Nyhedsavisen hefur vakið talsvert umtal, en blaðið greinir frá því að æskuhreyfing þriðja stærsta stjórnmálaflokks Danmerkur, Dansk Folkeparti, hafi haft spámanninn Múhammed að háði og spotti í sumarbúðum flokksins á árinu.

Talsmenn æskuhreyfingarinnar, DFU, segjast harma atburðinn, en segja þó að virða eigi skoðana- og tjáningarfrelsi og því sé leyfilegt sé að gera gys að trúarbrögðum og stjórnmálum, hvort sem það sé Múhammed, Jesús eða Bill Clinton, segir í frétt Dow Jones.

Í sumarbúðunum var efnt til teiknimyndasamkeppni og á internetinu hafa gengið manna á milli myndbrot úr henni sem sýna að virðist drukkin ungmenni sýna skopmyndir af Múhammed spámanni, meðal annars með skrokk úlfalda með hnúða úr bjórflöskum.

Zubair Butt Hussain, talsmaður dönsku samtakanna Muslims in Dialogue, hefur lýst yfir hneykslan á atburðinum, en segir hann þó ekki koma sér á óvart þar sem stjórnmálaflokkurinn eigi sér langa sögu um að gera lítið úr minnihlutahópum, sérstaklega Múslimum. Hann segist virða tjáningarfrelsi, en sýna þurfi bæði lagalega og siðferðislega ábyrgð, segir í fréttinni.