Tórshavnar Skipasmiðja Group verður líklega fyrsta færeyska fyrirtækið sem að skráð verður í Kauphöll Íslands segir í frétt í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. "Ég gæti ímyndað mér að Skipasmiðjan verði skráð í haust," segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, í samtali við Viðskiptablaðið. Fjárfestingafélagið NOTIO festi kaup á öllum eignum skipasmíðafyrirtækisins og lýsti því yfir að ætlunin væri að skrá fyrirtækið á Virðisbrævamarknað Föroya.

Samkvæmt samningi Kauphallarinnar og Virðisbrævamarknaðarins verða færeysk verðbréf skráð í Kauphöll Íslands. Þórður vonast til þess að í framhaldinu verði fleiri fyrirtæki skráð hér í Kauphöllinni. "Ég geri ráð fyrir að tvö til fimm fyrirtækið verði skráð hér innan 18 mánaða," segir Þórður. Nokkur önnur færeysk félög hafa verið nefnd sem líklegt þykir að verði skráð og má þar helst nefna Föroya Tele og Föroya Banki.

Um þetta er fjallað í Viðskiptablaðinu í dag.