Norska uppsjávarskipið Libas er fyrsta fiskiskip heims sem knúið er jarðgasi, LNG. Skipið kom til heimahafnar í Sotra skammt frá Bergen í liðnum mánuði eftir rúmlega eins árs tafir í afhendingu sem skrifast á heimsfaraldurinn.

Aðalvél skipsins getur brennt jarðgasi en einnig dísilolíu. Og þessu til viðbótar er 500 kílóvattstunda rafgeymastæða í skipinu. Það sem meira er þá getur vélin brennt blöndu af metangasi og jarðgasi í hlutföllunum 20% metangas og 80% jarðgas. Útgerð skipsins, Liafjord, hafði sett sér þau áform að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50-55% fyrir árið 2030. Nýja skipið er stórt skref í átt að þessu markmiði. Talsmenn útgerðarinnar segja að markmiðin náist reyndar nú þegar á þessu ári með nýja skipinu.

Uppsjávarskipið Libas er 86 metra langt og 18 metrar á breidd. Það er með lestarrými fyrir 2.900 tonn. Jarðgastankurinn er 350 rúmmetrar að stærð og aðalvélin skilar 6.000 kílóvöttum. Upphaflega átti skipið að kosta 300 milljónir NOK, 4,5 milljarða ÍSK, en ljóst er að endanlegur kostnaður verður mun hærri. Áhöfn skipsins hefur hlotið þjálfun við að umgangast jarðgas meðal annars með því að fylgjast með rekstri Fjordline ferjunnar milli Noregs og Danmerkur sem er knúin jarðgasi.