Stjórn Reykjaneshafnar hefur samþykkt samkomulag við Thorsil sem hyggst reisa kísilverksmiðju í Helguvík.

Snýst samkomulagið um fyrirkomulag greiðslna á grundvelli lóðar- og hafnarsamnings, en samkvæmt því gjaldféll fyrsta greiðsla 1. október síðastliðinni.

Fyrsta greiðslan 140 milljónir

Samkomulagið verður tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem haldinn verður klukkan 5 síðdegis í dag samkvæmt frétt Morgunblaðsins .

DV greinir frá því að félagið hafi sent inn beiðni um frestun á greiðslu félagsins á gatnagerðargjöldum, en fyrsta greiðslan á að nema 140 milljónum króna.

Fengið frest 7 sinnum

Nú þegar hefur félagið fengið frest sjö sinnum á að greiða en upphaflega átti félagið að ganga frá greiðslunni í desember 2014, en félagið fékk lóð úthlutaða í Helguvík í apríl sama ár.

Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri Reykjanesbæjar segir fyrstu greiðsluna vera gjaldfallna samkvæmt samkomulaginu og að frá og með eindaga muni dráttarvextir reiknast á greiðsluna í samtali við Morgunblaðið.

Búist er við að það taka 18 mánuði til tvö ár að byggja verksmiðjuna svo það eigi að gefast nægur tími til að ljúka einnig nauðsynlegum framkvæmdum á hafnarmannvirkjum.

Greiðsla skuldbyndur bæjaryfirvöld

„Við erum með allt klárt til að hefja framkvæmdir um leið og þessi niðurstaða er komin,“ segir Halldór en bæjaryfirvöld eru skuldbundin til að hefja lóðaframkvæmdir um leið og gengið hefur verið frá fyrstu greiðslu.

„Þannig að þetta á allt að geta smollið saman eins og flís við rass.“