Birgir Jónsson, forstjóri Play, hringdi félagið inn á First North markaðinn um borð í fyrstu vél Play, TF-AEW, í 12 þúsund feta hæð yfir hálendi Íslands. Ekki er vitað til þess að skráningarathöfn hafi áður farið fram í háloftunum. Bréf Play voru formlega tekin til viðskipta á markaði klukkan 9:30 í morgun.

Forsvarsmenn Play og Kauphallarinnar fögnuðu skráningunni um borð í vélinni, sem flaug frá Reykjavíkurflugvelli og áleiðis yfir hálendi Íslands. Var þetta í annað skipti sem flugvél Play hefur viðkomu á Reykjavíkurflugvelli, en sama vél stóð fyrir utan höfuðstöðvar Icelandair þegar starfsfólk Play og gestir þeirra fögnuðu nýafstöðnu útboði og jómfrúarflugi félagsins á Nauthóli þann 25. júní síðastliðinn.

Fullkomin þrenna

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði Play vera nokkurs konar táknmynd upprisu ferðaþjónustu á Íslandi eftir faraldurinn, í ræðu sinni við skráningarathöfnina.

„Play og ráðgjafar þess hafa með þessari skráningu unnið mikið og þarft frumkvöðlastarf á íslenskum hlutabréfamarkaði. Ég trúi því að útboð og skráning Play verði hvatning til fyrirtækja í ferðaþjónustu, og fleiri fyrirtækja raunar, til að sækja sér afl til vaxtar í kauphöllinni. Við notum stundum myndmál um First North vaxtarmarkaðinn, við segjum að hann gefi félögum vængi, hjálpi þeim að taka flugið, en þetta er í fyrsta sinn sem það er bókstaflega rétt," sagði hann og bætti við að Play hafi nú launað greiðann með því að gefa þeim í Kauphöllinni vængi hér í dag og leyfa þeim að taka flugið með sér:

„Úr verður ógleymanleg tímamótaathöfn, fyrsta skráningarathöfnin í háloftunum, og með því fullkomnar Play þrennu á markaðnum á þessu ári, það er að segja, það hafa verið skráningar núna það sem af er ári, í lofti, láði og legi," sagði Magnús áður en hann óskaði Play til hamingju með skráninguna.

Ætla að standa undir trausti

Birgir Jónsson sagði þetta vera mikinn gleðidag í ræðu sinni. Hann sagðist enn fremur ekki muna hvenær hann svaf síðast heila nótt vegna alls sem hefur verið í gangi, en á tiltölulega skömmum tíma hefur félagið lokið tveimur útboðum, hafið miðasölu, fengið sínar fyrstu vélar, hafið flug og nú skráningu.

„Við erum að loka gríðarlega skemmtilegu og erfiðu ferli að koma félaginu í starfsemi, fjármagna það, ráða inn fólk og í raun og veru að hefja reksturinn, undir öllum þeim kringumstæðum sem [Magnús] nefnir og það held ég að við séum öll sem að stöndum að félaginu meðvituð um að sé algjörlega einstakt og algjörlega einstakt ferli í okkar lífi. Ég held að við séum öll ofsalega meðvituð um það að þetta er hlutur sem að maður gerir ekkert oft á ævinni," sagði Birgir.

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, og Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, og Birgir Jónsson, forstjóri Play.
© Andrea Sigurðardóttir (Andrea Sigurðardóttir)
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, og Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Þá sagði hann þau hjá Play vera ótrúlega glöð og hrærð yfir viðtökunum sem fyrirtækið hefur fengið, hjá fólki, ferðamönnum og fjárfestum sem hafa trú á félaginu.

„Það er ákveðið traust sem er lagt á okkar herðar í þessu útboði og það er eitthvað sem við tökum gríðarlega alvarlega og ætlum svo sannarlega að standa undir. Við erum meðvituð um þessa tíma sem eru í íslensku efnahagslífi og íslenskri ferðaþjónustu og við ætlum svo sannarlega að leika stórt hlutverk í því bataferli fyrir viðspyrnuna. Við ætlum að láta til okkar taka í að skapa ný störf, hundruð starfa næstu mánuði, við ætlum að koma með mikið af ferðamönnum til landsins, við ætlum að bjóða hagstæð kjör fyrir Íslendinga á leið úr landi."

Vill beina athygli fyrirtækja að markaðinum

Þá nefndi hann að það væri mikilvægt að beina athygli fleiri fyrirtækja að First North markaðinum. „Það er ákveðin mýta að það sé svo ofboðslega flókið og erfitt ferli að fara í gegnum svona skráningu, að regluverkið sé svo þungt og erfitt. Ég hef ekki upplifað það, ég hef vissulega upplifað skýrar reglur en hér er verið að höndla með almannafé og það eiga að vera skýrar reglur. En með góðum ráðgjöfum og markvissum vinnubrögðum, þá er vissulega hægt að klára þetta verkefni," sagði hann og nýtti tækifærið til að þakka þeim sem voru félaginu til ráðgjafar í ferlinu, meðal annars Arctica Finance og Arion banka.

Fylgjast má með undirbúningi bjölluhringingarinnar í myndbandinu hér að neðan: