Fimmtudaginn 4. september mun samgönguráðherra Kristján L. Möller sprengja fyrstu sprengjuhleðsluna í Bolungarvíkurgöngum.

Sprengt verður Bolungarvíkurmegin og áætlað að sprengingin muni eiga sér stað um kl. 17:30.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Að því loknu verður haldin stutt athöfn í boði verktakans og Bolungarvíkurkaupstaðar í Náttúrugripasafni Bolungarvíkur.

Samkvæmt tilkynningunni áttu ÍAV og Marti Contractors Ltd lægsta tilboðið í Bolungarvíkurgöng um 3,5 milljarða króna en áætlaður verktakakostnaður var tæpir 4 milljarðar króna og var heildarkostnaður áætlaður um 5 milljarðar króna.

Um er að ræða 8,7 m breið, 5,1 km löng jarðgöng, byggingu um 270 m langra steinsteyptra vegskála, gerð um 3,7 km langra vega og byggingu tveggja brúa.

Samkvæmt útboði skal verkinu vera að fullu lokið 15. júlí 2010. Jarðvinna hófst við gangamunnana beggja vegna í júlí.