Nýjasta dagblað fjölmiðlaveldisins News Corps., sem er í eigu Rupert Murdoch, kom út í fyrsta sinn í dag. Útgáfan þykir merkilegt fyrir þær sakir að um er að ræða fyrsta dagblaðið sem kemur eingöngu út á iPad, nýjustu græju Apple.

Dagblaðið heitir The Daily . Haldið var upp á útgáfuna í dag í Guggenheim safninu í New York. Murdoch hefur fjárfest í blaðinu fyrir 30 milljónir dala og starfsmenn verða um 100 talsins.

Útgáfan þykir tilraunakennd og sagði Murdoch á kynningunni í dag að iPad kalli á breyttan hugsunarhátt. Hann sagðist þess fullviss að á „töflu-tímabilinu“ (e. tablet era) verði mikið rými fyrir ferska og kröftuga rödd.

Í frétt CNN um málið kemur fram að seldar hafi verið 14,8 milljónir iPad-tölvur. Murdoch telur að eigendur slíkra tölva verði fleiri en 50 milljónir innan árs.

Hægt er að kynna sér The Daily á heimasíðu „blaðsins“.