Lághitavirkjun sem hönnuð og reist var af íslenska jarðhitafyrirtækinu Enex í verktöku fyrir LaGeo í El Salvador er komin í fullan rekstur. Virkjunin sem er 9.3 MW að stærð, er fyrsta jarðvarmavirkjunin til raforkuframleiðslu sem íslenskt fyrirtæki sér um að hanna og reisa erlendis segir í frétt félagsins.

Virkjunin framleiðir nú 9.3 MW af raforku á fullum afköstum. Öllum keyrsluprófunum og álagsprófum hefur verið lokið. Nú tekur við eins árs ábyrgðartímabil. Samningurinn við LaGeo hljóðaði uppá rúmlega 13 milljónir bandaríkjadala eða um 1,6 milljarð íslenskra króna.

Verktakasamningurinn við jarðhitafélagið LaGeo í El Salvador er alverktökusamningur, þar sem hönnun, innkaup á búnaði, verkefnastjórnun og byggingarstjórnun var í höndum Enex. Enex réð verkfræðistofurnar Sertiproi í El Salvador, VGK (nú Mannvit), Rafteikningu og Fjarhitun (nú Verkís) á Íslandi til ráðgjafar og hönnunar á ýmsum þáttum verkefnisins. Enex sá jafnframt um allar prófanir, gangsetningu og þjálfun starfsmanna LaGeo.

Nýtir lághita til orkuframleiðslu

Virkjunin er jarðvarmavirkjun sem nýtir lághita til framleiðslu á raforku. Um er að ræða svokallaða tvívökvavirkjun þar sem jarðvökvinn hitar annan vinnsluvökva (isopentan) í lokaðri hringrás. Vinnsluvökvinn sýður við 160°C í varmaskiptum og knýr hverfil til raforkuframleiðslu.

Virkjunin er staðsett á Berlin jarðhitasvæðinu í El Salvador þar sem fyrir eru tvær hefðbundnar jarðgufuvirkjanir segir í fréttinni.