Í lok sumars mun íslenska eldflaugaáhugamannafélagið AIR skjóta á loft tveggja þrepa eldflaug sem mun verða fyrsta íslenska tækið sem rýfur hljóðmúrinn. Háskólinn í Reykjavík hefur þá í samstarfi við AIR hafið kennslu í eldflaugafræðum.

Félagið gaf nýverið út fyrsta fréttabréf sitt, en að félaginu standa Magnús Már Guðnason, efnaverkfræðinemi, og Sindri Freyr Smárason, pípulagningamaður. Þeir félagar eru báðir á þrítugsaldri og segir Magnús að meðal markmiða félagsins væri að sýna fram á að þetta sé hægt á Íslandi og til þess þurfi ekki endilega sérfræðimenntaða einstaklinga, né gríðarlega flóknar efnafræðiblöndur.

Þeir segja það vera mikinn heiður að HR hafi í samstarfi við AIR sett á laggirnar kúrs í eldflaugafræðum, en í lok áfangans verður skotið eldflaug á loft sem nemendur hafa unnið við.

„Eitt af þeim markmiðum sem við stefndum að í upphafi var að vekja áhuga á þessum fræðum og koma þeim inn í háskólana og samfélagið. Það vill vera svo að fólk í háskólum og menntaskólum læri einungis upp úr bókinni án þess að framkvæma og stuðlar þetta  því að nýsköpun og aukinni þekkingu," segir Magnús.

Nánar er fjallað um tilraunina í helgarblaði Viðskiptablaðsins.