Fjárfestingabanki þýska ríkisins KfW stækkaði í dag skuldabréfaflokk sinn í íslenskum krónum sem er á gjalddaga 20. september á næsta ári, að sögn greiningardeildar Landsbankans sem segir að stækkunin nemi 5 milljörðum króna og er flokkurinn þar með kominn í 51 milljarða króna.

?Ávöxtunarkrafa bréfanna í dag er um 11,5%, en skiptivextir í krónum til eins árs voru nær 13% samkvæmt Bloomberg og um 12,5% til eins og hálfs árs. Núverandi gengi íslensku krónunnar er mun hagstæðara til útgáfu slíkra bréfa en það var síðastliðið haust þegar útgáfurnar hófust, en krónan hefur fallið um 17% gagnvart evrunni síðan þá," segir greiningardeildin.

Hún segir að heildarútgáfur jöklabréfa nema nú nærri 235 milljörðum króna og verða fyrstu bréfin á gjalddaga í september í haust.