Kínverski ríkisflugvélaframleiðandinn COMAC svipti í gær hulunni af fyrstu stóru farþegaþotu sinni, sem nefnist C919. Vélin tekur 158 farþega og getur flogið 5.555 kílómetra með fullan eldsneytistank. Fyrsta flug vélarinnar verður árið 2016.

Frumsýningarathöfnin fór fram á Pudong flugvelli í Sjanghæ, og rétt rúmlega 4.000 embættismenn ásamt öðrum boðsgestum litu við til að dást að flugvélinni, sem er 39 metra löng og hvítmáluð með grænt stél.

Kínversk stjórnvöld hafa lengi viljað skerf af því fjármagni sem fer út úr landi gegnum kaup á erlendum farþegaflugvélum. Hingað til hafa kínversk flugfyrirtæki reitt sig á Airbus og Boeing þotur.

Kommúnistaflokknum hefur fundist sárt að þurfa að kaupa af þeim.