Nettó brýtur blað í sögu verslunar á Íslandi þegar fyrsta lágvöruverðsverslunin á netinu verður formlega opnuð á morgun, þann 6.september, klukkan 10.00 inni á Aha.is. Gunnar Egill Sigurðsson framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa segir netverslunina rökrétta þróun við auknum kröfum viðskiptavina. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Við erum meðvituð um að það skiptir öllu máli að vera á tánum og okkur finnst rökrétt skref að bjóða viðskiptavinum okkar uppá þennan valkost. Úrvalið í netversluninni eru á pari við þau sem eru í verslunum okkar og verðin eru nákvæmlega þau sömu,“ segir Gunnar.

Netverslun á Íslandi er ekki ný af nálinni en þetta er í fyrsta sinn sem lágvöruverðsverslun býður uppá slíka þjónustu. Viðskiptavinum Nettó gefst kostur á að gera öll sín matarinnkaup á netinu. Viðskiptavinir geta sótt vörurnar í verslanir Nettó, þar sem þær hafa verið teknar saman, án nokkurs auka kostnaðar. Einnig geta þeir fengið vörurnar sendar heim gegn vægu sendingargjaldi.

Gunnar segir hugmyndina snúast fyrst og síðast um tímasparnað fyrir viðskiptavini sem kjósi að eyða tíma sínum í annað en að fara í búðir og versla.

„Ef við setjum dæmið upp þá má segja að með því að panta á netinu og sækja í búðina sparar viðskiptavinur sér lágmark þrjátíu mínútur í hverri ferð.  Ef hann ert skipulagður og fer kannski tvisvar í viku í búðina, er það samtals ein klukkustund. Ein klukkustund á viku verða fjórar klukkustundir á mánuði og yfir árs tímabil gera það 48 klukkustundir eða rúmlega heila vinnuviku. Okkur finnst gaman að geta boðið fólki uppá að nýta tímann sinn í eitthvað annað, eins og samverustundir með fjölskyldunni,“ segir Gunnar.

Aha.is er ein stærsta netverslun landsins en 2/3 heimila á höfuðborgarsvæðinu hafa nýtt sér þjónustu fyrirtækisins.  Yfir 100 verslanir og veitingastaðir selja vörur inná aha.is og verður Nettó stærsti seljandinn í þeim hópi.

„Undanfarin fimm ár höfum við stefnt á að koma alvöru framboði af matvöru á netið  og teljum okkur ná því með Nettó. Undirbúningur hefur gengið mjög vel, stjórnendur Nettó eru búnir að kynna sér matvöruverslun á netinu erlendis vel og úrvalið sem er í boði frá upphafi er mjög fjölbreytt.“ segir Helgi Már Þórðarson, annar eiganda Aha.is.

Nettó er í eigu Samkaupa hf. og var fyrsta verslun Nettó opnuð á Akureyri árið 1989. Í dag eru verslanirnar sextán talsins og eru staðsettar víða um land;  í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Akureyri, Borgarnesi, Selfossi, Reykjanesbæ, Grindavík, Höfn í Hornafirði, Egilsstöðum, Húsavík og á Ísafirði.

Til að byrja með verður hægt að sækja vörurnar í verslun Nettó í Mjódd eða fá þær heimsendar á höfuðborgarsvæðinu. Áður en árið er úti verður einnig hægt að sækja í verslun Nettó á Granda og í Hafnarfirði. Í fyllingu tímans verður svo hægt að sækja á fleiri staði.