Skip Síldarvinnslunnar, Börkur NK, kom til Seyðisfjarðar í morgun með 2.900 tonn af loðnu og hófst löndun úr honum klukkan átta. Aflinn verður unninn í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar á staðnum.

Frá þessu segir á heimasíðu fyrirtækisins sem sló á þráðinn til Eggerts Ólafs Einarssonar verksmiðjustjóra og spurði hvort loðnunni væri ekki fagnað.

„Jú, svo sannarlega. Þetta eru tímamót því hingað hefur ekki borist loðna í tæp fjögur ár. Síðast var loðnu landað hérna árið 2017 og þá tók verksmiðjan á móti 18.600 tonnum. Hér ríkir mikil gleði enda er loðnan skemmtilegasti fiskurinn til framleiðslu á mjöli og lýsi. Undanfarin ár hefur eingöngu kolmunna verið landað í verksmiðjuna hjá okkur og síðasta kolmunnalöndunin var fyrir hálfu ári eða um mánaðamótin maí-júní. Það eru 14 starfsmenn í verksmiðjunni og með löndunarmönnum munu um 20 manns starfa við loðnuna hér á staðnum. Tilkoma loðnunnar skiptir miklu máli fyrir starfsmennina og samfélagið allt. Menn fagna loðnunni innilega og vonandi er frábær vertíð að hefjast,“ segir Eggert Ólafur, í viðtalinu.

Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki, segir í fréttinni að loðnuveiðin gangi þokkalega.

„Það er verst að það er nánast eingöngu veiði yfir daginn, en það nást ágætis hol á þessum sex tímum sem er þokkalega bjart. Ég er viss um að þetta á eftir að ganga vel á vertíðinni og við munum halda rakleiðis á miðin að löndun lokinni. Það er hugur í mönnum,“ segir Hálfdan.

Barði NK kom til Neskaupstaðar í morgun og er að landa þar 1.300 tonnum af loðnu. Beitir NK er á miðunum og var kominn með góðan afla þegar af honum fréttist í morgunsárið.