*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Innlent 9. október 2019 13:42

Fyrsta málið fyrir yfirdeildinni

Málflutningur í máli lögmannanna Gests Jónssonar og Ragnars Halldórs Hall gegn íslenska ríkinu fór fram í dag.

Ritstjórn
Geir Gestsson flytur mál lögmannanna Gests Jónssonar og Ragnars Hall en þeir sjást sitja að baki honum.

Málflutningur í máli lögmannanna Gests Jónssonar og Ragnars Halldórs Hall gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu fór fram í Strassbourg í dag. Málið er hið fyrsta er varðar Ísland sem fer fyrir yfirdeild dómstólsins.

Málið varðar réttarfarssekt sem lögmönnunum var gert að greiða fyrir að hafa sagt sig frá verjendastörfum í Al-Thani málinu áður en aðalmeðferð hófst. Það gerðu þeir í mótmælaskyni þar sem þeir töldu ákæruvaldið ekki hafa virt þau réttindi sem kveðið er á um í sakamálalögunum.

Sektin, ein milljón króna á haus, var ákveðin í héraði án þess að þeir kæmu að vörnum. Þeirri niðurstöðu var áfrýjað til Hæstaréttar en þar var réttarfarssektin staðfest án þess þó að lögmönnunum hefði verið gefinn kostur á að koma fyrir réttinn í persónu til að koma vörnum á framfæri.

Þá niðurstöðu kærðu þeir til MDE en byggt var á því að brotið hefði verið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að svo hefði ekki verið. Óskað var eftir því að málið gengi til yfirdeildarinnar og var fallist á það.

Sem fyrr segir fór málflutningur í málinu fram í dag. Fyrir hönd lögmannanna flutti Geir Gestsson, sonur Gests Jónssonar, málið en Fanney Rós Þorsteinsdóttir flutti málið fyrir hönd ríkisins. Dóms er að vænta eftir hálft til eitt ár. Hægt er að horfa á upptöku af málflutningnum með því að smella hér.

Annað mál er varðar Ísland verður flutt fyrir yfirdeildinni á næstu mánuðum en það varðar skipan dómara við Landsrétt.