*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Erlent 16. nóvember 2020 19:04

Fyrsta mannaða geimskotið í einkarekstri

SpaceX sendi fjóra geimfara í alþjóðlegu geimstöðina, og var það fyrsta reglulega geimskotið í einkarekstri fyrir NASA.

Ritstjórn
Elon Musk forstjóri og 54% meirihlutaeigandi í SpaceX ásamt með Dragon geimferju en ein slík hefur nú sent fjóra geimfara út í geim.

Geimskot fyrirtækisins SpaceX í gær á fjórum geimförum sem munu dvelja næsta hálfa árið í Alþjóðlegu geimstöðinni var sögulegt fyrir þær sakir að um er að ræða fyrsta reglulega geimskotið í einkarekstri með áhafnarmeðlimi.

Jafnframt var þetta í fyrsta sinn sem fjórum geimförum hefur verið skotið upp í einni og sömu geimferjunni. Áhöfnin mun dvelja í geimstöðinni í hálft ár og taka þátt í ýmsum rannsóknum.

Í síðustu viku samþykkti Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, formlega að Falcon 9 eldflaug SpaceX og Dragon geimflaugin væru örugg til notkunar fyrir vaktaskipti í geimstöðinni og aðrar reglulegar þjónustuferðir fyrir stofnunina.

Fyrirtækið, sem Elon Musk forstjóri Tesla stýrir einnig og á meirihlutann í, sendi fyrir tveim mánuðum tvo geimfara í geimstöðina fyrir NASA í tilraunaskoti, en nú hefur NASA jafnframt heimilað að SpaceX noti eldflaugar sem hafa verið notaðar áður í sínar reglubundnu ferðir fyrir stofnunina.

Kostar 40% minna á hvern geimfara

Með því að lenda geimflaugum sínum á ný sem og öðrum leiðum til að spara og nýta fjármuni sína betur er talið að geimskot SpaceX verði 40% ódýrari á hvern geimfara en það sem NASA hefur þurft að greiða rússnesku geimferðastofnuninni.

Nasa hefur þurft að nýta fyrrum keppinauta sína til að senda menn í geimstöðina síðan stofnunin hætti eigin geimskotum þegar geimskutlunum var lagt árið 2011. SpaceX hefur þegið 3,1 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 423 milljörðum íslenskra króna frá bandaríska ríkinu. Keppinauturinn um reglulegar ferðir fyrir NASA, Boeing, hefur þegið 4,8 milljarða dala.

Elon Musk sagði formlega samþykkt NASA vera „mikinn heiður sem blási mönnum í brjóst sjálfstraust í markmiði okkar um að snúa aftur á tunglið, ferðast til Mars og á endanum hjálpa mannkyninu að lifa á mörgum plánetum,“ að því er WSJ hefur eftir honum í umfjöllun um geimskotið.

Geimskotið i vafa því Musk mældist jákvæður á Covid prófi

Þar segir jafnframt að NASA hafi fyrst sagt geimskotið í uppnámi vegna þess að Musk sjálfur hafi fengið jákvætt úr Covid 19 prófum, það er tveimur af fjórum sem hann tók sama daginn, en hann fékk neikvætt úr hinum tveimur. Geimskotinu var síðan frestað vegna veðurs frá laugardegi til sunnudags.

Í geimskotinu nú fóru út í geim japanski geimfarann Soichi Noguchi sem áður hafði farið með geimskutlunni, Victor Glovel sem verður fyrsti blökkumaðurinn til að eyða lengri tíma í geimstöðinni sem áhafnarmeðlimur, Michael Hopkins, sem er með titilinn colonel í geimhernaðararmi bandaríska hersins (US Space Force) auk Shannon Walker, sem er með doktorsgráðu í geimeðlisfræði.

Stikkorð: NASA Elon Musk SpaceX