Flugvélaframleiðandinn Boeing tilkynnti fyrr í dag að hann hafi fengið sína fyrstu pöntun á MAX-737 flugvélunum frá því í lok síðasta árs. Viðskiptavinir Boeing hafa hætt við fleiri en 400 pantanir á árinu.

Það var pólska leiguflugfélagið Enter Air sem lagði inn pöntunina fyrir tvær þotur og með möguleika á tveimur til viðbótar. Flugfélagið náði einnig samkomulagi við Boeing um bætur vegna kyrrsetningar sex MAX-737 þota sem félagið hafði þegar pantað.

„Þrátt fyrir að þetta sé mikilvægt þar sem um er að ræða fyrstu MAX pöntunina síðan í desember, þá er þetta engu að síður lítil pöntun... [Enter Air] fékk líklega drjúgan afslátt,“ hefur Reuters eftir greiningaraðila S&P Global Ratings.

MAX vélarnar hafa verið kyrrsettar frá því mars í fyrra og telja sumir að kyrrsetningunni verði ekki aflétt fyrr en í byrjun næsta árs .

„Við erum auðmjúk vegna skuldbindingar Enter Air við Boeing 737 fjölskylduna,“ segir Ihssane Mounir, varaforseti sölu- og markaðsdeildar farþegasviðs Boeing í tilkynningu félagsins.