Stormur HF 294, nýtt línu- og netaskip útgerðarinnar Stormur Seafood, sigldi til Reykjavíkurhafnar í gær. Skipið er fyrsta fiskiskipið á Íslandi sem drifið er af rafmótor og fyrsta nýsmíði í línuskipaflota landsmanna í 16 ár.

Skipið kemur hingað frá Gdansk í Póllandi og tók um tvö ár í smíði. Stormur er 45 metra langur, um þúsund brúttólestir og tekur allt að 400 tonn af frystri afurð í lest. Að auki er skipið fyrsta rafknúna fiskiskipið á Íslandi og mun slíkur rafbúnaður lágmarka umhverfisáhrif og auka hagkvæmni við veiðar.

„Mikilvægt er að fleiri aðilar í sjávarútveginum líti til kaupa á skipum líkt og Stormi sem er afar umhverfisvænn og gengur fyrir rafmótor. Eldsneytisnotkun á sambærilegum skipum er afar mikil og þarf geirinn í heild að huga betur að loftslagsmálum,“ segir Steindór Sigurgeirsson, aðaleigandi Storms Seafood.

„Hagkvæmni við veiðar eykst einnig við komu skipsins en það er búið nýjustu gerð línubeitingarvélar sem tekur mun meira en sambærileg skip hér á landi. Það má því segja að koma skipsins marki tímamót í íslenskum sjávarútvegi.“