Í framhaldi ákvörðunar iðnaðarráðherra, Össurar Skarphéðinssonar,  í árslok 2007 um upphaf útboða á sérleyfum í janúar 2009 til olíuleitar á Drekasvæðinu, hefur verið boðað til alþjóðlegrar ráðstefnu í Reykjavík dagana 4. og 5. september nk.

Ráðstefnan ber heitið Iceland Exploration Conference 2008.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu og Orkustofnun sem standa saman að ráðstefnunni.

Drekasvæðið liggur á svonefndum Jan Mayen-hrygg norðaustur af landinu. Þetta verður fyrsta olíuleitarráðstefnan, sem haldin hefur verið á Íslandi, samkvæmt tilkynningunni.

Þá kemur fram að fyrirlesarar verða kunnir sérfræðingar frá Norðurlöndunum sem hafa umtalsverða reynslu í jarðfræði- og olíurannsóknum á Norður-Atlantshafi. Ráðstefnan er ætluð jarðfræðingum, olíuleitarsérfæðingum og stjórnendum hjá olíuleitar- og olíufyrirtækjum, sem annast olíuleit á nýjum og áður óþekktum svæðum.

„Við bindum miklar vonir við olíufund á Dreaksvæðinu enda benda rannsóknir til að þar sé að finna verðmætar olíulindir,“ segir Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra í tilkynningunni.

„Við höfum hvatt erlenda aðila, sem áhuga hafa á nýjum olíusvæðum á norðurslóðum, til að sitja ráðstefnuna.“

„Á ráðstefnunni munum við kynna og dreifa jarðfræði- og sérfræðilegum upplýsingum til ráðstefnugesta um Drekasvæðið, fjárhagshliðina og íslensk skattamál til fræðslu fyrir væntanlega olíuleitaraðila,“ segir Kristinn Einarsson, verkefnisstjóri Orkustofnunar, en hann annast skipulag og framkvæmd ráðstefnunnar.

Alls verða fluttir 12 vísindalegir fyrirlestrar á ráðstefnunni en hún verður formlega sett af iðnaðarráðherra. Auk þess verður tími fyrir erlendu sérfræðingana til að kynna sér endurnýjanlegar orkulindir á suðvesturhorninu og eiga fundi með íslenskum sérfræðingum og orkufyrirtækjum.