"Mér líst afskaplega vel á ný íbúðalán KB banka. Þetta er eiginlega löngu tímabært," segir Pétur H. Blöndal alþingismaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag. "Þetta er hluti af ákveðinni þróun vegna frjálsra fjármagnsflutninga. Erlendir fjárfestar fóru að kaupa íslensk húsbréf og lækkuðu þar með vexti. Þar með komst á samkeppni í útlánum til einstaklinga. Þetta framtak KB banka er í framhaldi af því og fyrsta raunverulega samkeppnin á þessum markaði

Ríkið drepur niður aðra samkeppni sem er við hliðina á því og Íbúðalánasjóður, áður Húsnæðismálastofnun, hefur verið stærsti lánveitandi á Íslandi, sérstaklega til einstaklinga en KB banki getur nú boðið betri kjör en Íbúðalánasjóður sem er merkilegt -- og raunar athugunarvert.

Einnig verður að hafa í huga að lántakendur hjá Íbúðalánasjóði hafa ekki endilega verið með trygga vexti til frambúðar. Í reglum um sjóðinn er ákvæði um að hann geti sett á vaxtaálag, þróist mál þannig.

Þetta er því verulega ánægjulegt og ég vona að sem flestir hoppi á þetta og að þetta leiði til einkavæðingar Íbúðalánasjóðs sem er nátttröll eins og flest sem ríkið rekur.

Ítarleg umfjöllun er um málið í Viðskiptablaðinu í dag.