Fyrstu skemmtiferðaskipin sem sigla hingað til lands í sumar koma til Reykjavíkur í dag og á morgun. Thomson Spirit kom til hafnar í morgun og japanska skemmtiferðaskipið Asuka II  kemur til höfuðborgarinnar á morgun en skipið er 50 þúsund tonn að stærð og á því eru 960 farþegar. Skipið verður tvo daga í höfn og munu japönsku ferðamennirnir því fá tækifæri til að skoða sig ágætlega um á Íslandi. Asuka II er með tvær sundlaugar, 8 bari, spilavíti, leikhús og líkamsræktarstöð svo eitthvað sé nefnt.

Japönsk skemmtiferðaskip koma hingað til lands annað hvert. ,,Það er búist við tæplega hundrað þúsund farþegum til Íslands í sumar með skemmtiferðaskipum sem er svipaður fjöldi og í fyrra. Helstu hafnir sem skemmtiferðaskip heimsækja eru Reykjavík, Ísafjörður og Akureyri en einnig hafa Vestmannaeyjar, Grundarfjörður og Seyðisfjörður verið að sækja á,“ segir Jóhann Bogason, deildarstjóri hjá TVG-Zimsen, sem þjónustar flest skemmtiferðaskip sem koma hingað til lands.

Jóhann segir að sú þjónusta sem TVG-Zimsen veiti, sé m.a. aðstoð við áhafnarskipti, útvegun vista, varahluta og læknisþjónustu ásamt öllum samskiptum við höfn, toll og útlendingaeftirlit.