Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu var 8,1% árið 2016. Hlutur greinarinnar hefur aukist hratt á síðustu árum samfara miklum vexti í greininni. Til samanburðar var hlutur greinarinnar 3,5% árið 2009 og hefur hækkað á hverju ári síðan. Bráðabirgðatölur um hlut ferðaþjónustunnar í landsframleiðslu fyrir árið 2017 verða birtar 20. júlí næstkomandi en útfrá vexti greinarinnar á síðasta ári, sem var vel umfram hagvöxt, má gera ráð fyrir að hlutur greinarinnar í landsframleiðslu hafi verið umtalsvert meiri í fyrra en árið 2016.

Hlutur ferðaþjónustu fór árið 2016 í fyrsta skiptið upp fyrir hlut fiskveiða- og vinnslu í landsframleiðslu. Hlutur fiskveiða í landsframleiðslu nam 4,6% en hlutur fiskvinnslu 2,6% og samanlagður hlutur greinanna tveggja var því 7,2%.