Sameiginleg velta Sólar og Emmessís verður ríflega einn milljarður króna en Sól keypti Emessís í síðustu viku. Í viðtali Viðskiptablaðsins við Snorra Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Sólar ehf., kemur fram að velta Sólar fyrir kaupin nam um 200 milljónum króna. Eins og komið hefur fram þá keypti Sól Emmessís hf. og er stefnt að sameiningu fyrirtækjanna í lok árs.

Hjá sameinuðu fyrirtæki munu starfa um 50 manns. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Stofnendur Sólar eru auk Snorra: Hrafn Hauksson, Leifur Grímsson og Jón Scheving Thorsteinsson. Jón er stærsti hluthafinn og er hlutur hans inni í fjárfestingarsjóðnum Arev N1 en eigendur hans eru Eignarhaldsfélagið Arev ehf. með 67% og Icebank hf. með 33%.

Snorri sagðist sjá fyrir sér töluverða stækkun þessa markaðar sem félagið starfar á. Hneigðin væri til þess að markaðurinn krefðist betri og hreinni vöru á sviði safa og það sama ætti við um ís. Þar væru möguleikar á hollari vöru. Aðspurður sagði Snorri að engin ákvæði væru um hráefniskaup af Mjólkursamsölunni. "Við höfum hins vegar áhuga á að kaupa áfram íslenskar landbúnaðarvörur. Það má vera að þetta sé okkar fyrsta skref inn í framleiðslu landbúnaðarafurða."

Að sögn Snorra verður rekstur ísgerðarinnar áfram á Bitruhálsi 1 fyrst um sinn, en Sól ehf., sem framleiðir ferska ávaxtasafa, hefur aðstöðu sína á Lynghálsi 7. Að sögn Snorra er ekki um að ræða varanlegt húsnæði og er ætlunin að sameina starfsemina undir einu þaki í framtíðinni. Snorri sagðist sjá fyrir sér mikla samlegð með þessum tveimur félögum, bæði í sölu og markaðsstarfi, einnig dreifingu og vöruumsýslu og rekstri tölvu- og upplýsingakerfa.