Að sögn Gunnlaugs M. Sigmundssonar, forstjóra Kögunar, eru ný kaup félagsins bara fyrsta skrefið inn á Ameríkumarkað. "Um er að ræða vel rekið og rótgróið lítið fyrirtæki með um 30 starfsmenn. Það er með skrifstofur á tveimur þekktum stöðum þar sem allt suðar og kraumar af þrótti og viðskiptum og meðal viðskiptavina eru þekkt stór fyrirtæki, nöfn sem allir þekkja," sagði Gunnlaugur.

Eins og kom fram í frétt fyrirtækisins fyrr í dag til Kauphallarinnar hefur Kögun skrifað undir samning um kaup á bandarísku hugbúnaðarfyrirtæki. Samningurinn er með fyrirvara um áreiðanleikakönnun en gert er ráð fyrir að ganga frá endanlegum samningum í lok desember. Kaupverð á fyrirtækinu er trúnaðarmál segir í tilkynningu Kögunar en velta fyrirtækisins á árinu 2005 er áætluð um 500 milljónir íslenskra króna og EBIDTA hlutfall um 20%.