Árið sem er nýliðið var óhefðbundið og var það engin undantekning hjá landsliðsframherjanum Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur. Dagar hennar í sóttkví hafa verið álíka margir og hefðbundnir dagar og veiruprófin slaga upp í fjölda skoraðra marka. Næsta sumar ætlar hún að taka í sumarfrí frá fótboltanum í fyrsta sinn í mörg ár.

Í byrjun árs 2019, þegar vanalega er undirbúningstímabil hér heima, fór Berglind á láni til hollenska liðsins PSV í Eindhoven. Um sumarið lék hún á ný með Breiðabliki en í ársbyrjun 2020 gekk hún til liðs við hið sögufræga AC Milan.

„Ég hugsaði með mér „ohhh, annað lið á Ítalíu, ég trúi þessu ekki“ þegar ég frétti af því að AC Milan hefði áhuga á mér. Reynslunni ríkari bað ég um að fá að sjá allt þegar ég kæmi út, íbúðina og aðstöðuna, áður en ég myndi skrifa undir. Það var ekkert mál þannig að ég fór út, skoðaði allt og fylgdist með liðinu æfa og var búin að ákveða í fluginu á leiðinni heim að ég ætlaði að skrifa undir,“ segir Berglind.

Strax í fyrsta leik skoraði hún í tvígang, þar á meðal sigurmarkið, þegar Milan kom til baka á móti Roma í 3-2 sigri. Alls skoraði hún fimm mörk í fimm leikjum með liðinu. „Þetta var algjörlega sturlað, miklu fleiri áhorfendur en annars staðar þar sem ég hef leikið og mun blóðheitari áhorfendur. Það var líka áhugi í Verona en það var einhvern vegin allt annað og meira í Mílanó. Við vorum til að mynda með sameiginlega samfélagsmiðla með karlaliðinu, sem er eitthvað sem ég hef ekki kynnst áður, og það voru allir að fylgjast með. Því fylgdi að vísu áreiti – ég held ég hafi fengið einhver fjögur bónorð í gegnum Instagram – sem var alveg skemmtilegt fyrst en á endanum slökkti ég á tilkynningunum í símanum,“ segir framherjinn og hlær.

Veirudjöfullinn batt hins vegar snöggan enda á tíma hennar hjá Milan og um skeið var Berglind stödd í brennidepli faraldursins í Evrópu. Þegar faraldurinn stóð sem hæst var útgöngubanni skellt á, knattspyrnuiðkun sett á ís, æfingum hætt og reyndi hún að halda sér í leikformi með lyftingum með vatnsflöskum og sprettum í bílakjallara.

Erfitt að vera í botnbaráttu

Eftir tímabilið sneri Berglind aftur heim, að sjálfsögðu í græna liðið í Kópavoginum, en liðið stóð uppi sem sigurvegari endaslepps Íslandsmóts eftir að veiran sneri aftur úr sumarfríi. Í haust skrifaði hún síðan undir hjá franska liðinu Le Havre. Fyrir hjá liðinu var einnig varnarmaðurinn Anna Björk Kristjánsdóttir en þær voru samtíða hjá PSV í Hollandi.

„Eiginlega um leið og ég kom aftur heim var Milan búið að setja sig í samband við stjórnina og reyna að fá mig út aftur, helst strax í júlíglugganum en annars eftir tímabilið. Ástandið út af veirunni hafði verið hræðilegt þarna úti og ég hafði verið innilokuð í nærri þrjá mánuði þannig að ég ákvað að taka tímabilið heima og reyna að finna gleðina aftur. Síðan þegar það kláraðist þá fann ég að mig langaði að prófa eitthvað annað. Ég hafði verið tvisvar á Ítalíu og þegar Frakkland kom upp fann ég að ég var spenntari fyrir því.“

Líkt og víðast hvar hefur vírusinn gert sig heimakominn í Frakklandi öðru sinni og vera Berglindar í Frakklandi hálfgerð búbbla. Í ofanálag hefur lið hennar verið í basli, situr á botni deildarinnar eftir tíu umferðir og hefur ekki unnið síðan í fyrsta leik. Það er eitthvað sem framherjinn hefur ekki vanist í gegnum tíðina enda oftar en ekki verið í liðum sem eru í efri hluta deildarinnar.

„Það hefur verið hálfgert útgöngubann og ég fer ekkert út úr húsi nema til að fara á æfingu eða út í búð. Á milli æfinga eru síðan endalaus Covid-próf. Ég held að það sem af er ári sé búið að troða priki oftar en tuttugu sinnum upp í nefið á mér,“ segir Berglind. „Tímabilið hefur verið strembið. Ég hugsaði um daginn, áður en við fórum í landsliðsverkefnið, að ég hefði ekki unnið fótboltaleik síðan í ágúst. Það hefur reynt mikið á en á sama tíma verið mjög lærdómsríkt.“

Samningur Berglindar við Le Havre er til tveggja ára og að þessu sinni stendur ekki til að taka tímabil heima á Íslandi yfir sumarið. „Ég ætla að vera í fríi næsta sumar. Ég hef verið stanslaust í fótbolta í tvö ár, hef tekið undirbúningstímabilið úti og fer þaðan í tímabil með Blikunum. Ég get því ekki beðið eftir því að taka sumarfrí heima. Ég held þetta sé í fyrsta sinn sem ég verð í fríi bara síðan ég var krakki svo ég hugsa að ég nýti það í að ferðast um landið, horfa á leiki og gera einu sinni eitthvað annað en að vera í fótbolta daginn út og inn.“

Geðshræring eftir fyrsta landsliðsmarkið

Um svipað leyti og Berglind náði að brjóta sér inn í byrjunarlið Breiðabliks var hún valin í fyrsta sinn í A-landsliðið, þá sextán ára gömul og tæpu hálfu ári betur. Á þeim tíma voru kanónur eins og Þóra Björg Helgadóttir, Katrín Jónsdóttir, Edda Garðarsdóttir og Ólína Björg Viðarsdóttir í hópi þeirra sem mynduðu hryggjarstykkið í liðinu. Þá hefur Margrét Lára Viðarsdóttir ekki verið nefnd til sögunnar.

„Siggi Raggi [Sigurður Ragnar Eyjólfsson] valdi mig þarna um sumarið og ég var bara alls ekki tilbúin í þetta verkefni. Það voru þarna algjörar sleggjur í hópnum sem ég leit upp til og bar brjálaða virðingu fyrir. Maður var bara eins og lítil mús í kringum þær og þorði ekki að segja neitt. Það var sennilega of stórt skref að koma sextán ára inn í þetta,“ segir Berglind.

Fyrsti A-landsleikurinn kom á Algarve mótinu tveimur árum síðar en framan af landsliðsferlinum var hún mikið á bekknum eða uppi í stúku. Í rúmlega helmingi landsleikja sinna hefur hún komið inn af bekknum og fyrsta markið lét bíða eftir sér þar til í leik númer 24 árið 2017. Það er nokkuð langur tími, sér í lagi í ljósi þess að eftir þriggja leikja markaþurrð árið 2016 sagði Berglind í viðtali eftir leik að það hefðu „farið þarna einhver þrjátíu kíló af mér og mig langaði helst að rífa mig úr að ofan og hlaupa um“. Svo skemmtilega vill til að fyrsta markið var einmitt á í útileik á móti Slóvakíu, á sama velli og hún átti eftir að skora á þremur árum síðar og með því koma liðinu með átta tær inn á lokamót í Evrópukeppni.

„Ég gleymi þessari tilfinningu aldrei, hún var biluð. Fyrir leikinn núna sagði Jón Þór við mig: „þú veist að þú skoraðir fyrsta markið á þessum velli og á móti þessum markmanni.“ Ég hafði ekkert spáð í það en ég man að um leið og ég skoraði það mark brast stífla innra með mér og ég fór bara að hágráta. Allar stelpurnar komu til mín og peppuðu mig og í bakgrunni heyrðist í Freysa [Frey Alexanderssyni, þáverandi landsliðsþjálfara] öskra úr sér lungunum af fögnuði. Ég kláraði leikinn í einhverri geðshræringu, skokkaði um þarna frammi en það gekk ágætlega svona miðað við það,“ segir Berglind.

Undir lok undankeppninnar nú fékk Berglind traustið sem byrjunarliðsmaður í fremstu víglínu og þakkaði fyrir það með síðustu tveimur mörkum undankeppninnar. Annars vegar fyrrnefnt mark gegn Slóvakíu og hins vegar sigurmarkið gegn Ungverjalandi sem tryggði sætið á Evrópumótinu í Englandi 2022.

„Það hefur verið svolítið basl að sýna sig og sanna þegar maður er bara að koma inn hér og þar. Ég er mjög þakklát fyrir tækifærið núna og það er náttúrulega geggjað að geta þakkað fyrir sig með því að tryggja okkur inn á EM. Núna er það bara biðin eftir lokamótinu sjálfu. Þú getur rétt ímyndað þér hvað litla stelpan í Manchester-treyjunni vonar að við lendum í riðli sem verður leikinn á Old Trafford,“ segir Berglind og hlær.

Ítarlegt viðtal við Berglindi er að finna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út undir lok síðasta árs. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .