Alcoa, stærsti álframleiðandi Bandaríkjanna og eigandi Fjarðaáls í Reyðarfirði, skilaði 1,19 milljarða dala tapi á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Þetta er fyrsta ársfjórðungslega tap félagsins í sex ár að því er segir í frétt Bloomberg, en verð á áli hefur hrapað að undanförnu.

Á sama fjórðungi ári fyrr var 632 milljóna dala hagnaður af rekstrinum. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1994 sem tap er af rekstrinum þegar litið er framhjá einskiptiskostnaði, að sögn Bloomberg.

Hlutabréf félagsins lækkuðu um 69% í fyrra en þá lækkaði álverð um 36% í London Metal Exchange og birgðir náðu 14 ára hámarki.

Alcoa er fyrsta fyrirtækið í Dow Jones Industrial Average vísitölunni sem skilar uppgjöri í þessari uppgjörshrinu.