Bank of America, stærsti banki Bandaríkjanna, tilkynnti í dag um 1,8 milljarða dollara tap á fjórða fjórðungi ársins 2008. Er þetta í fyrsta sinn sem bankinn tilkynnir um tap síðan árið 1991. Greinendur Citigroup höfðu spáð tapi upp á 3,6 milljarða dollara, og er afkoman því, þrátt fyrir að vera slök, yfir væntingum. Bloomberg fréttaveitan greinir frá þessu.

Til samanburðar má nefna að hagnaður var af rekstri bankans síðasta fjórðung ársins 2007, upp á 268 milljónir dollara.

Tapið ásamt 138 milljarða dala stuðningi frá ríkinu veldur því að vangaveltur eru um framtíð forstjóra bankans, Kenneth D. Lewis, að því er segir í frétt Bloomberg. Hlutabréf í bankanum hafa fallið um 75% frá því yfirtakan á Merrill Lynch var tilkynnt í september.