Breska lággjaldaflugfélagið EasyJet tapaði 1,27 milljörðum punda, eða sem samsvarar tæplega 229 milljörðum íslenskra króna á reikningsári félagsins sem lauk 30. september síðastliðnum.

Þar með var þetta ár sem einkenndist af áhrifum kórónuveirufaraldursins það fyrsta í 25 ára sögu félagsins þar sem tap var af rekstrinum, en tekjur félagsins helminguðust milli ára.

Félagið býst við því að það muni fljúga um fimmtung af þeim flugum sem félagið stendur alla jafna undir inn í næsta ár en væntir mikils af tilkomu nýs bóluefnis við Covid 19 vegna mikillar undirliggjandi eftirspurnar.

Um 11 vikna skeið á árinu var allur flugfloti félagsins kyrrsettur vegna faraldursins, og þurfti félagið bæði að taka lán og sækja fjármagn til hluthafa, auk þess að selja tugi flugvéla frá sér á árinu.

Johan Lundgren forstjóri félagsins sagði þó við BBC að félagið ætti ekki að þurfa meira fjármagn en þá 3 milljarða breskra punda sem félagið hefur þegar safnað. Auk þess hefur félagið fengið 600 milljón pund lánað frá breska ríkinu og stefnir það á frekari lántökur í gegnum viðbragðsáætlanir breskra stjórnvalda til að fleyta fyrirtækjum í gegnum faraldurinn.