Fyrsta tap Merrill Lynch yfir heilt ár síðan 1989 leit dagsins ljós þegar félagið birti uppgjör sitt í dag. Nam tap félagsins yfir árið í heild 7,8 milljarða bandaríkjadala og voru síðustu þrír mánuðir ársins sérstaklega erfiðir en 9,8 milljarða dollara halli, sá mesti frá upphafi á einum ársfjórðungi, var á rekstri bankans á því tímabili, að því er fram kemur hjá greiningardeild Kaupþings.

“Afskriftir, sem að langmestu leyti má rekja til undirmálslána, námu samtals 14,1 milljarða dollara eingöngu á fjórða ársfjórðungi. Yfir árið í heild námu afskriftirnar hins vegar tæpum 23,0 milljörðum dollara. Afskriftir stærstu fjármálafyrirtækja heims vegna undirmálslána eru þar með komnar vel yfir 100 milljarða dollara síðan í maí á síðasta ári,” segir greiningardeildun.

“Fyrr í vikunni skiluðu CitiGroup og Morgan Stanley bæði slökum uppgjörum og má rekja það að miklum hluta til afskrifta á lánum og skuldabréfum,” segir greiningardeild Landsbankans..

“Goldman Sachs skilaði aftur á móti methagnaði árið 2007 en Goldman hafði veðjað á lækkun á húsnæðismarkaði. Að því er fram kemur í Bloomberg hafa alls 100 ma.USD verið afskrifaðir fram að þessu vegna ótryggra húsnæðislána af stærstu bönkum og verðbréfafyrirtækjum heims. Ekki sér þó fyrir enda á þessari afskriftarhrinu þar sem uppgjör fleiri banka verða birt á næstunni,” segir greiningardeild Landsbankans.

“Tap félagsins á hlut nam 12,01 dollara á fjórða ársfjórðungi sem er miklum mun meira en spáð hafði verið en væntingar greiningaraðila, samkvæmt samantekt Bloomberg, voru í kringum 4,82 dollara tap á hlut,” greiningardeild Kaupþings.

“Nokkrar breytingar hafa verið gerðar eftir að skipt var um forstjóra bankans. Nýr forstjóri, John Thain sem áður var forstjóri NYSE Euronext kauphallarinnar, tók við í síðasta mánuði og hóf strax að lagfæra fjárhag bankans og hefur lausafé m.a. þegar verið aukið með sölu ýmissa eigna. Þá hafa erlendir fjárfestar, einkum frá Asíu og Mið-Austurlöndum, verið fengnir til liðs við félagið,” segir hún.