Tap bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing á fjórða ársfjórðungi síðasta árs nam 2,53 milljörðum dala, eða sem nemur 314,38 milljörðum íslenskra króna. Er þetta mikill viðsnúningur frá sama tíma fyrir ári félagið hagnaðist um 3,87 milljarða dala.

Tap ársins í heild nam 3,4 milljörðum dala, og er þetta í fyrsta sinn í meira en tvo áratugi sem félagið stendur uppi með tap eftir árið. Fyrir árið 2018 nam hagnaður ársins 10,7 milljörðum dala. Gengi bréfa félagsins hefur lækkað um 0,013% það sem af er degi, í 316,56 Bandaríkjadali.

Ástæða tapsins er fyrst og fremst kyrrsetning Boeing 737 MAX vélanna en félagið býst við að kostnaður vegna hennar muni nema 19 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 2.360 milljörðum íslenskra króna.

Félagið hætti framleiðslu á Max vélunum um jólin en jafnframt hafði félagið tilkynnt um að það hygðist draga úr framleiðslu á 787 Dreamliner vélunum, úr 14 vélum á mánuði í 12, vegna minnkandi eftirspurnar frá Kína.

Núna tilkynnir félagið jafnframt um meiri samdrátt eða fækkun úr 12 í 10 á mánuði, fram til ársins 2023 þegar það hyggst auka framleiðsluna aftur í 12 á mánuði. Félagið hyggst enn skila fyrstu 777X vélunum til kaupenda í ársbyrjun 2021.

Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs drógust tekjur Boeing saman um 37%, úr 28,3 milljörðum dala í 17,9 milljarða dala, tekjur ársins drógust saman um 24%, úr 101,1 milljarði dala í 76,6 milljarða.