Íbúðalánasjóður hefur í kjölfar útboðs á íbúðabréfum ákveðið að lækka útlánavexti sjóðsins. Útlánavextir íbúðalána með uppgreiðsluákvæði verða 4,20% (voru 4,40%) og 4,70% á íbúðalánum án uppgreiðsluákvæðis (voru 4,90%). Vaxtaákvörðunin tekur gildi í dag, 17. janúar 2012 samkvæmt fréttatilkynningu.

Vaxtaákvörðun Íbúðalánasjóðs byggir á ávöxtunarkröfu í útboði íbúðabréfa sem haldið var í gær, 16. janúar, ásamt vegnum fjármagnskostnaði uppgreiðslna ÍLS-veðbréfa. Vegnir vextir í útboðinu og uppgreiddra ÍLS-bréfa eru 3,31%. Vaxtaálag vegna rekstrar er 0,45%, vegna útlánaáhættu 0,45% og vegna uppgreiðsluáhættu 0,50%.

Þetta var fyrsta skuldabréfaútboð Íbúðalánasjóðs á þessu ári í gær. Í boði voru verðtryggðu flokkarnir HFF24, HFF34 og HFF44. Í útgáfuáætlun sjóðsins fyrir árið 2012 kemur fram að áætluð útgáfa á fyrsta ársfjórðungi er 6-7 ma.kr. að nafnvirði eða um 9-11 ma.kr. að markaðsvirði samkvæmt greiningu IFS.